Skal þjálfa hunda og mótorhjól sé því að skipta

Sólveig Lára Kjærnested, Stjörnunni.
Sólveig Lára Kjærnested, Stjörnunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér finnst þetta spennandi verkefni. Fyrir mér skiptir engu máli hvort ég þjálfa karla eða konur. Ég skal þjálfa hunda eða mótorhjól sé því að skipta. Þjálfun er þjálfun,“ sagði Sebastian Alexandesson í samtali við Morgunblaðið í gær eftir að tilkynnt var um ráðningu hans og Rakelar Daggar Bragadóttur í starf þjálfara kvennaliðs Stjörnunnar í handknattleik. Sebastian og Rakel Dögg taka við starfinu af Halldóri Harra Kristjánssyni sem stýrt hefur Stjörnunni síðustu þrjú ár.

Sebastian þjálfaði á Selfossi vel á annan áratug, jafnt meistaraflokk karla sem kvenna. Á nýliðinni leiktíð þjálfaði Sebastian hjá Þrótti Reykjavík.

Rakel Dögg er þrautreynd handknattleikskona. Hún hefur leikið ríflega 100 landsleiki en lengst af verið leikmaður Stjörnunnar en var einnig um skeið hjá Kolding í Danmörku og hjá Levanger í Noregi. Rakel Dögg hefur áður verið í þjálfarateymi Stjörnunnar, m.a. um skeið áður en Halldór Harri var ráðinn til starfans fyrir þremur árum. Rak Dögg lék með Stjörnunnar fram að síðustu áramótum er hún rifaði segli eftir að hafa orðið barnshafandi.

„Forráðamenn Stjörnunnar voru ekki lengi að selja mér þá hugmynd að taka við þjálfun liðs þeirra. Eins og dæmið var sett upp af þeim þá lítur út fyrir skemmtilegt verkefni og áskorun um leið,“ sagði Sebastian sem síðast þjálfaði kvennaliðs Selfoss leiktíðina 2016 til 2017 auk nokkurra ára þar á undan.

Sebastian segir ljóst að margir ætli að leggjast á árar í Garðabæ og standa á bak við liðið. Hann og Rakel Dögg verði ekki ein. „Eitt af því sem heillaði mig við þetta verkefni er hversu margir ætla að koma að þeirri vinnu sem þarf að leggja af mörkum til þess að byggja upp gott lið í Garðabæ,“ sagði Sebastian sem hlakkar til samstarfsins við Rakel Dögg og alla þá sem að Stjörnuliðinu standa.

Nánar er fjallað um málið í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Sebastian Alexandersson.
Sebastian Alexandersson. mbl.is/Guðmundur Karl
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert