Unnum leikinn fyrir Grím

Selfyssingurinn Einar Sverrisson.
Selfyssingurinn Einar Sverrisson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við unnum þennan leik á klassa liðsheild,“ sagði stórskyttan Einar Sverrisson í liði Selfyssinga við mbl.is eftir sigurinn sæta gegn FH-ingum í næstsíðustu umferð Olís-deildar karla í handknattleik í Kaplakrika í kvöld.

„Við gerðum þetta allir saman og liðsheildin hjá okkur var mjög öflug. Við unnum þennan leik fyrir Grím aðstoðarþjálfara sem þurfti að fara í smá aðgerð. Við urðum að vinna leikinn fyrir karlinn. Við breyttum um varnarleik um miðjan fyrri hálfleikinn sem virkaði vel og sló FH-inga svolítið út af laginu.

Klassalið eru með mörg varnarafbrigði og það er gott að geta skipt um vörn ef hún er ekki að ganga sem skyldi. Við náðum líka að leysa það vel þegar FH-ingarnir bættu við manni í sóknina í seinni hálfleik. Við skoruðum nokkur ódýr mörk og náðum að halda FH-ingunum þetta 2-3 mörkum undir allan seinni hálfleikinn,“ sagði Einar en eftir úrslitin í næstsíðustu umferðinni eru ÍBV, Selfoss og FH öll með 32 stig en baráttan um deildarmeistaratitilinn stendur á milli ÍBV og Selfoss.

„Ég var nú eitthvað að reyna að kynna mér þessar reglur fyrir leikinn en ég skildi ekkert í þeim. Mér skilst að við þurfum að treysta á að ÍBV vinni ekki sinn leik í lokaumferðinni og við að vinna okkar leik til að titillinn verði okkar. Hjá okkur er ekkert annað en að halda áfram á þessari braut. Mér finnst liðið okkar líta vel út fyrir úrslitakeppnina,“ sagði Einar, sem skoraði 4 mörk í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert