Tímabil glataðra tækifæra

Sveinn Þorgeirsson, Fjölni, tv.
Sveinn Þorgeirsson, Fjölni, tv. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við féllum ekki á þessum leik, einum og sér. Þetta hefur verið tímabil glataðra tækifæra,“ sagði Sveinn Þorgeirsson, leikmaður handknattleiksliðs Fjölnis og einn þeirra Fjölnismanna sem staðið hefur í fylkingarbrjósti félagsins undanfarin mörg ár, eftir að ljóst varð að Fjölnir er fallinn úr Olísdeildinni í handknattleik.

„Við höfum gott tækifæri til þess að vinna í okkar málum í sumar. Ég hef engar áhyggjur þótt vonbrigðin séu mikil á þessari stundu,“ sagði Sveinn.

„Við höfum sýnt öllum liðum deildarinnar að við eigum erindi í þessa deild. Ég held að við höfum gefið þeim öllum hörkuleiki en því miður skorti okkur stöðugleikann. Við sýndum handboltalega getu en því miður vantaði okkur reynslu. Það er talsverður þroski fólginn í að leika í efstu deild og á stundum var okkur refsað. Við verðum að vinna í okkar málum,“ sagði Sveinn sem telur að hægt verði að halda liðinu saman.

„Í sumar fáum við nýtt íþróttahús í Grafarvogi. Þá getum við unnið betur í okkar málum og haldið áfram að byggja upp gult hjarta í Grafarvogi,“ sagði Sveinn Þorgeirsson, leikmaður handknattleiksliðs Fjölnis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert