Grótta vann fjörugan leik í Mosfellsbæ

Sveinn José Rivera, leikmaður Gróttu, skýtur í átt að marki …
Sveinn José Rivera, leikmaður Gróttu, skýtur í átt að marki í leiknum í dag. Hrafn Ingvarsson í Aftureldingu fylgist með. mbl.is/Eggert

Grótta vann Aftureldingu, 29:27, í Mosfellsbænum í 18. umferð Olísdeildar karla í handkattleik í kvöld í fjörugum leik.

Mosfellsbæingar töpuðu illa gegn Haukum í síðustu umferð og virtust hreinlega ekki vera búnir að jafna sig almennilega á þeirri útreið í upphafi leiks. Gróttumenn voru grimmir og tóku snemma forystuna en heimamenn gerðu sig ítrekað seka um mistök; slæmar sendingar og misheppnuð skot.

Afturelding náði að jafna metin um miðbið fyrri hálfleiks áður en Grótta gaf aftur í og var staðan 12:14 í hálfleik, gestunum í vil en Bjarni Ófeigur Valdimarsson og Pétur Árni Hauksson voru með þrjú mörk hvor fyrir Gróttu.

Afar umdeilt atvik átti sér stað rétt fyrir hálfleik er varnarmaður Aftureldingar virtist brjóta á Hannesi Grimm eftir að leiktími fyrri hálfleiks var runninn út. Gunnar Óli Gústafsson dómari lét sér þó fátt um finnast og dæmdi vítakast, heimamönnum til mikillar gremju. Kolbeinn Aron Ingibjargarson gerði sér lítið fyrir og varði vítið frá Júlíusi Þóri Stefánssyni en þetta mótlæti virtist halda áfram að hafa áhrif á heimamenn.

Grótta skoraði fimm af fyrstu sex mörkum síðari hálfleiks og var með góða forystu um tíma. Bjarni endaði með níu mörk en hjá heimamönnum voru það Kristinn Hrannar Bjarkason og Gestur Ólafur Ingvarsson sem skoruðu sitt hvor fjögur mörkin.

Afturelding gerði eitt loka áhlaup á síðustu mínútunum og minnkuðu muninn niður í eitt mark á lokamínútunni en þetta reyndist of lítið of seint. Gróttumenn unnu því góðan sigur og fara í 11 stig en eru áfram í 9. sætinu. Afturelding er áfram í 6. sæti með 19 stig.

Afturelding 27:29 Grótta opna loka
60. mín. Gestur Ólafur Ingvarsson (Afturelding) skoraði mark Eins marks munur!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert