Skiptir ekki máli hver skorar þessi mörk

Ester Óskarsdóttir sækir að marki Stjörnunnar í leiknum í dag.
Ester Óskarsdóttir sækir að marki Stjörnunnar í leiknum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ester Óskarsdóttir, leikmaður ÍBV, var ánægð í viðtali við mbl.is eftir 27:25 sigur á Stjörnunni í 14. umferð Olísdeildar kvenna í handbolta í dag. Hún segir það fyrst og fremst varnarleiknum að þakka að ÍBV hafi unnið í dag.

„Við þéttum vörnina svakalega vel í seinni hálfleik og það var það sem skilaði þessu, við skildum aldrei neinn eftir og hjálpuðumst að sem lið.“

Eftir hnífjafnan fyrri hálfleik voru það Stjörnukonur sem tóku frumkvæðið í upphafi síðari hálfleiks áður en ÍBV sneri taflinu við en Ester segir mikinn karakter vera innan leikmannahópsins.

„Þjálfarinn sagði í hálfleik að halda alltaf áfram, sama hvort við lendum undir eða ekki. Það er viss karakter að geta það og gefast aldrei upp.“

Ester átti sjálf afbragðsleik og skoraði átta mörk en hún sagði frammistöðu liðsins skipta mestu máli.

„Ég er með góða leikmenn í kringum mig og þá er þetta auðveldara, ég hitti á góðan dag og aðrir líka, það skiptir ekki máli hver er að skora þessi mörk.“

Með þessum sigri náði ÍBV að styrkja stöðu sína töluvert í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni og sagði Ester stigin tvö hafa verið gífurlega mikilvæg í dag.

„Þetta var mjög mikilvægt til að skilja Stjörnuna aðeins eftir. Þær eru núna sex stigum fyrir aftan okkur þannig að þetta var mjög mikilvægt nú þegar lítið er eftir.“

Forráðamenn Stjörnunnar voru ekki sérlega ánægðir með dagsetningu leiksins en Ester segir það engu máli hafa skipt, enda hafi þetta sömu áhrif á bæði liðin.

„Nei ég get ekki sagt það, það er sama álag á öllum. Við erum líka að fara að spila leik núna á miðvikudaginn, við þurfum að ferðast en ekki þær. Þetta skiptir engu máli,“ sagði hún að endingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert