Guðjón Valur rústaði kosningunni en vann ekki

Guðjón Valur Sigurðsson.
Guðjón Valur Sigurðsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðjón Val­ur Sig­urðsson, landsliðsfyr­irliði Íslands í hand­knatt­leik og leikmaður Þýska­lands­meist­ara Rhein-Neckar Löwen, var í sérflokki í kosningu á besta vinstri hornamanni heims árið 2017. Hann vann hins vegar ekki.

Vefsíðan Handball-planet stendur að kjörinu ár hvert, en sérfræðingar síðunnar kjósa auk þess sem lesendur geta haft áhrif. Óhætt er að segja að Guðjón Valur hafi stolið senunni í lesendakosningunni, en af þeim 32 leikmönnum sem tilnefndir voru samtals í öllum stöðum fékk Guðjón Valur langflest atkvæði lesenda.

Alls fékk Guðjón Valur 9.309 atkvæði, en næstur í kosningu lesenda var Króatinn Luka Cindric með 6.693 atkvæði og þriðji var Daninn Lasse Svan Hansen með 5.959 atkvæði. Guðjón Valur vann lesendakosninguna um stöðu vinstri hornamanns með 48% atkvæða. 

Það að Guðjón Valur hafi verið efstur í kjöri lesenda færði honum 20 stig í kosningunni, en sérfræðingar síðunnar röðuðu leikmönnum í hverri stöðu upp og fékk sá efsti 3 stig, annar 2 stig og þriðji 1 stig. Alls voru fjórir tilnefndir í hverri stöðu.

Guðjón Valur fékk alls 30 stig og hafnaði samtals í þriðji sæti í heildarniðurstöðunni í sinni stöðu, en Þjóðverjinn Uwe Gensheimer fékk 82 atkvæði og komst því í heimsliðið. Hann var annar í kjöri lesenda með 30% atkvæða.

Heimsliðið árið 2017 að mati Handball-planet má sjá hér að neðan.

Markvörður: Arpad Sterbik (Vardar Skopje og Spánn)
Vinstra horn: Uwe Gensheimer (PSG og Þýskaland)
Vinstri skytta: Mikkel Hansen (PSG og Danmörk)
Leikstjórnandi: Nikola Karabatic (PSG og Frakkkland)
Hægri skytta: Nedim Remili (PSG og Frakkland)
Hægra horn: Victor Tomas (Barcelona og Spánn)
Línumaður: Bjarte Myrhol (Skjern og Noregur)
Varnarmaður: Luka Karabatic (PSG og Frakkland)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert