Sveinn Aron til Aftureldingar

Sveinn Aron Sveinsson leikur með Aftureldingu næst vikurnar.
Sveinn Aron Sveinsson leikur með Aftureldingu næst vikurnar. mbl.is/Golli

Afturelding hefur fengið hornamanninn Svein Aron Sveinsson að láni frá Íslandsmeisturum Vals en meiðsli hrjá tvo af fjórum örvhentum leikmönnum handknattleiksliðs Aftureldingar um þessar mundir. 

Ráðgert er að Sveinn Aron leiki með Aftureldingu til ársloka en hann hefur ekkert verið í Valsliðinu í Olís-deildinni á þessari leiktíð. Sveinn hefur aðeins leikið með U-liði Vals í næstefstu deild, svokallaðri Grill66-deild.

Sveinn Aron hleypur í skarðið fyrir hornamanninn Gest Ólaf Ingvarsson sem er tábrotinn og leikur ekki meira með Aftureldingu á þessu ári. Það staðfesti Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar, við mbl.is í dag. 

Einar staðfesti einnig að stórskyttan Birkir Benediktsson yrði frá keppni fram í febrúar eftir að þumalfingur vinstri handar brotnaði í þriðja sinn hjá honum á einu ári. Óheppnin heldur áfram að elta Birki, sem þykir með efnilegri handknattleiksmönnum landsins. 

Þriðji örvhenti leikmaður Aftureldingar, Ernir Hrafn Arnarson, má ekki leika með liðinu gegn Val í Olís-deildinni á heimavelii annað kvöld vegna leikbanns sem hann var úrskurðaður í á fundi aganefndar HSÍ fyrir helgina. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert