Ætla að verða heimsmeistarar

Ómar Ingi Magnússon.
Ómar Ingi Magnússon. mbl.is/Golli

Íslenska landsliðið í handknattleik skipað leikmönnum 21 árs og yngri mætir Túnis í 16-liða úrslitum heimsmeistaramótsins sem haldið er í Alsír. Liðið mætti Króatíu í gær í riðlakeppninni og tapaði 29:26. Króatar höfðu undirtökin allan tímann og voru níu mörkum yfir í hálfleik, 17:8.

Íslenska liðið náði sér aðeins á strik en munurinn fór minnst niður í þrjú mörk þegar um fjórar mínútur voru eftir. Króatar gáfu þó ekkert eftir og þriggja marka tap varð raunin. Elvar Örn Jónsson var markahæstur í íslenska liðinu með sjö mörk, Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði fimm og Ómar Ingi Magnússon skoraði fjögur. Leikurinn var úrslitaleikur um efsta sæti D-riðils og varð Króatía efst með níu stig og íslenska liðið annað með stigi minna.

„Við mættum einfaldlega ekki klárir í leikinn. Fyrri hálfleikur var mjög slæmur af okkar hálfu, við gleymdum okkur í vörn og áttum slæm skot í sókninni,“ sagði Ómar Ingi Magnússon, leikmaður íslenska liðsins, í samtali við Morgunblaðið. Túnis varð í þriðja sæti C-riðils eftir 25:21 tap gegn Spáni í gær, en liðið var í öðru sæti fyrir sigur Makedóníu á Brasilíu, en með sigrinum komst Makedónía í annað sætið.

16-liða úrslit á morgun

Ísland mætir Túnis í 16-liða úrslitum á morgun, en átta liða úrslitin fara fram á fimmtudag. „Túnisbúar eru búnir að vera flottir á mótinu hingað til, þeir eru svolítið á heimavelli hér í Alsír. Við reiknum með mikilli stemningu á leiknum. Þeir eru með góðan markmann og heilt yfir eru þeir sterkir og hættulegir. Við þurfum að mæta klárir strax í byrjun og vera tilbúnir í stríð. Við getum ekki verið 30 mínútur að byrja leikinn gegn svona sterku liði.“

Ómar Ingi er meðal markahæstu manna íslenska liðsins, en örvhenta skyttan skoraði 17 mörk í riðlakeppninni. Hann segir þó rými fyrir bætingu.

„Ég sjálfur get bætt fullt af hlutum og þarf að gera það. Ég þarf að spila betur fyrir liðið og ná að koma fleirum í betri færi og auðvitað að klára þau tækifæri sem ég fæ.“

Íslenska liðið lagði Argentínu 36:27, Sádi-Arabíu 48:24, Marokkó 35:18 og heimamenn í Alsír 35:18. Því er leikurinn gegn Króatíu eina tap liðsins í riðlakeppninni. Liðið hefur leikið vel til þessa, en hver eru markmið Íslands á mótinu?

„Við ætlum að vinna, við erum alveg á því getustigi en það þarf margt að ganga upp. Það eru smáatriði sem við erum að vinna í á hverjum degi sem þurfa skila sér inn á dúkinn. Við erum að fínpússa okkar leik og núna þurfum við að skrúfa upp einbeitinguna og halda henni í þessa viku sem er eftir. Leikur liðsins hingað til hefur verið fínn fyrir utan daginn í dag. Leikurinn í dag var samt lærdómsríkur og við þurfum að nýta það í næstu leiki.“

Sjá alla greinina í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert