Aron búinn að semja við Barcelona

Aron Pálmarsson hefur verið einn besti handknattleiksmaður heims síðustu ár.
Aron Pálmarsson hefur verið einn besti handknattleiksmaður heims síðustu ár. mbl.is/Kristinn Magnússon

Veszprém vildi halda honum, Kiel og PSG vildu fá hann, en handboltastórstjarnan Aron Pálmarsson hefur samið við spænska stórliðið Barcelona.

Þetta fullyrðir spænska blaðið El Mundo Deportivo og líkir komu Arons við komu Frakkans Nikola Karabatic til Barcelona á sínum tíma. Aron sé það góður og auk þess yngri en Karabatic var, eða 26 ára gamall.

Samkvæmt spænska blaðinu hefur Barcelona náð samkomulagi við Aron um að fá kappann sumarið 2018, þegar samningur hans við Veszprém rennur út. Hins vegar gerir Barcelona sér vonir um að geta fengið Aron strax í sumar og er í viðræðum við ungverska félagið um kaupverð.

El Mundo Deportivo bendir á að Aron verði brátt faðir og fullyrðir að verðandi barnsmóðir hans, Ágústa Eva Erlendsdóttir, vilji búa í Barcelona. Það spili inn í ákvörðunina og hafi hjálpað Barcelona í baráttunni við Kiel og PSG.

Arnar Freyr Theodórsson umboðsmaður Arons vildi ekki tjá sig um málið að svo stöddu þegar mbl.is hafði samband við hann í morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert