Grgic yfirgefur Valsmenn

Josip Grgic í leik með Val gegn FH.
Josip Grgic í leik með Val gegn FH. mbl.is/Kristinn Magnússon

Króatíska stórskyttan Josip Grgic mun ekki spila með nýkrýndum Íslandsmeisturum Vals í handknattleik á næsta tímabili.

„Josip heldur heim á leið. Næstbesta liðið í Króatíu hefur sóst eftir kröftum hans. Hann var valinn í 28 manna landsliðshóp Króatíu sem æfir í sumar og hann lítur á það sem betra tækifæri fyrir sig að spila í Króatíu. Josip hefur þroskast vel hjá okkur var mjög ánægður og það verður gaman að fylgjast með honum í framtíðinni,“ sagði Guðlaugur Arnarsson, annar af þjálfurum Vals, við mbl.is.

Josip Grgic, sem er 22 ára gamall, skoraði 110 mörk í deildarkeppninni með Valsmönnum og varð annar markahæsti leikmaður liðsins og þá skoraði hann 45 mörk í þeim átta leikjum sem hann lék með Val í úrslitakeppninni. Grgic lék með yngri landsliðum og var m.a. í silfurliði Króata á heimsmeistaramóti 20 ára landsliða í Ungverjalandi fyrir fáeinum árum.

Magnús Óli Magnússon, fyrrverandi leikmaður FH sem leikið hefur með Rioch í Svíþjóð undanfarin tvö ár, hefur verið sterklega orðaður við Valsmenn en hann hefur ákveðið að snúa aftur heim. Guðlaugur vildi ekki tjá sig um þau mál í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert