Afar hungraðar í að vinna titilinn

Helena Rut Örvarsdóttir fagnar sigri Stjörnunnar gegn Gróttu.
Helena Rut Örvarsdóttir fagnar sigri Stjörnunnar gegn Gróttu. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta var mjög skrýtinn leikur. Við vorum jafn góðar í fyrri hálfleik og við vorum slakar í seinni hálfleik. Við náum alltaf að gera leikina spennandi og við þurfum að laga það. Við náðum hins vegar að tryggja okkur sigurinn sem er aðalatriðið,“ sagði Helena Rut Örvarsdóttir, leikmaður Stjörnunnar í samtali við mbl.is, eftir að liðið tryggði sér sæti í úrslitum Íslandsmótsins í handbolta kvenna með sigri gegn Gróttu í oddaleik liðanna í dag. 

„Við náðum ekki að spila jafn öfluga vörn í seinni hálfleik og við höfðum gert í þeim fyrri. Það gerir það að verkum að við fáum ekki hraðaupphlaup. Þær ná að koma sér inn í leikinn, en sem betur fer náðum við að klára þetta. Þetta er búin að vera sérkennileg sería og ég er mjög ánægð með að hún sé að baki og við séum komnar í úrslitin,“ sagði Helena aðspurð um muninn á spilamennsku Stjörnunnar í fyrri og seinni hálfleik. 

„Við erum búnar að tapa í úrslitum fjögur ár í röð og það er gríðarlegt hungur í okkar herbúðum að ná loksins að lyfta dollunni. Ég hlakka mjög til rimmunnar við Fram. Það verður erfið, en um leið skemmtileg viðureign sem við ætlum okkar að hafa betur í. Við erum mjög spenntar og getum eiginlega ekki beðið eftir að byrja,“ sagði Helena Rut um úrslitaviðureign Stjörnunnar gegn Fram sem framundan er. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert