Geir fer með nýliða til Noregs

Geir Sveinsson ræðir við sína leikmenn á HM.
Geir Sveinsson ræðir við sína leikmenn á HM. Vincent MICHEL,Ljósmynd/IHF

Íslenska landsliðið í handknattleik tekur þátt í fjögurra liða alþjóðlegu móti í Noregi 8., 9. og 10. júní í aðdraganda lokaleikjanna í undankeppni Evrópumótsins. Geir Sveinsson segir að í leikjunum í mótinu í Noregi muni margir lítt reyndir leikmenn fá tækifæri vegna þess að þeir leikmenn sem leika með félagsliðum í Þýskalandi geti ekki tekið þátt í leikjunum.

Á mótinu í Noregi mætir íslenska landsliðið því norska, pólska og sænska.

„Ég mun gefa óreyndari leikmönnum tækifæri í mótinu í Noregi auk leikmanna sem leika með dönskum félagsliðum og hugsanlega geta einhverjir sem leika með frönskum félagsliðum tekið þátt,“ sagði Geir. „Það jákvæða er að efniviður er nægur, margir leikmenn eru farnir að banka á landsliðsdyrnar.“

Hinn 14. og 18. júní leikur íslenska landsliðið lokaleiki sína í undankeppni EM, gegn Tékkum ytra og við Úkraínu fjórum dögum síðar í Laugardalshöll.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert