Þórey drjúg og Vipers í undanúrslitin

Þórey Rósa Stefánsdóttir.
Þórey Rósa Stefánsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórey Rósa Stefánsdóttir, landsliðskona í handknattleik, var atkvæðamikil í kvöld þegar Vipers Kristiansand tryggði sér sæti í undanúrslitum umspilsins í norska handboltanum.

Þórey skoraði 6 mörk fyrir Vipers sem vann öruggan sigur á Sola, 34:27, en lið hennar vann þar með báðar viðureignir liðanna. Eva Björk Davíðsdóttir náði ekki að skora fyrir Sola sem hefur lokið keppni.

Birna Berg Haraldsdóttir og samherjar í Glassverket eru nokkuð óvænt úr leik eftir að hafa fengið skell gegn Storhamar á heimavelli í kvöld, 18:27. Storhamar vann báða leikina. Birna skoraði 3 mörk í leiknum sem var sennilega hennar síðasti með Glassverket því óvíst er með framtíð félagsins eftir þessa leiktíð vegna fjárhagsvandræða.

Það verða því Vipers, Storhamar, Larvik og Tertnes sem leika til úrslita í umspilinu sem gefur sæti í Meistaradeild Evrópu. Larvik varð norskur meistari rétt eina ferðina með því að vinna úrvalsdeildina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert