Einu höggi frá niðurskurði

Guðmundur Ágúst Kristjánsson á Joburg Open á Evrópumótaröðinni í síðustu …
Guðmundur Ágúst Kristjánsson á Joburg Open á Evrópumótaröðinni í síðustu viku. AFP/Luke Wlaker

At­vinnukylf­ing­ur­inn Guðmundur Ágúst Kristjánsson komst ekki í gegnum niðurskurðinn á In­vestec South African-mót­inu á Evrópumótaröðinni í golfi en hann lauk leik á öðrum hring fyrir skömmu. Leikið er í Jóhannesarborg í Suður-Afríku.

Guðmund­ur Ágúst, sem varð á dög­un­um ann­ar ís­lenski karl­kylf­ing­ur­inn til að tryggja sér full­an þátt­töku­rétt á Evr­ópu­mótaröðinni, á eft­ir Birgi Leifi Hafþórs­syni, lék á 72 höggum eða á pari Blair Atholl-vallarins á fyrsta hring á fimmtudag.

Honum tókst að leika sex holur á öðrum hring í gær áður en leik var frestað vegna veðurs. Á þeim tímapunkti var hann í fínum málum á tveimur höggum undir pari, réttum megin við áætlaða niðurskurðarlínu.

Leik var fram haldið í morgun og hóf Guðmundur daginn ágætlega með pörum á fyrstu þremur holunum. Hann tapaði þá tveimur höggum í röð og var kominn í aðeins verri stöðu.

Guðmundur svaraði vel með tveimur fuglum á næstu fimm holum og var aftur kominn réttum megin við áætlaða niðurskurðarlínu þegar hann átti aðeins tvær holur óleiknar á öðrum hring.

Hann fékk par á 17. braut en skolla á þeirri 18. og féll niður fyrir áætlaða niðurskurðarlínu. Allir kylfingarnir hafa lokið leik og því má slá því föstu að Guðmundur Ágúst sé úr leik.

Staðan á mótinu

Guðmundur Ágúst er ofarlega á biðlista fyrir Alfred Dunhill-meistaramótið í Suður-Afríku í næstu viku en er með öruggt sæti á Mauritius Open, sem hefst 15. desember næstkomandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert