Haraldur og Guðmundur eiga báðir möguleika

Guðmundur Ágúst Kristjánsson og Haraldur Franklín Magnús eru í Kent …
Guðmundur Ágúst Kristjánsson og Haraldur Franklín Magnús eru í Kent á Englandi. mbl.is/Arnþór Birkisson

Atvinnukylfingarnir Haraldur Franklín Magnús og Guðmundur Ágúst Kristjánsson eiga enn möguleika á að blanda sér í baráttuna um efstu sætin á úrtökumótinu fyrir The Open, breska meistaramótið í golfi, en þeir spila þessa stundina á Prince's vellinum í Sandwich Bay á Englandi.

Fjórir efstu af 72 keppendum á Prince's komast á The Open en leiknir eru tveir hringir á úrtökumótinu, báðir í dag. Haraldur lauk fyrri hringnum fyrir stundu á 71 höggi, einu undir pari vallarins, og Guðmundur lék á 72 höggum, á pari.

Haraldur er sem stendur í sextánda sæti ásamt tíu öðrum kylfingum og Guðmundur kemur þar á eftir í 27. sætinu. Efstu fjórir þessa stundina eru á þremur og fjórum höggum undir pari vallarins þannig að Íslendingarnir gætu báðir komist í slaginn um efstu fjögur sætin með góðum seinni hring í dag en þeir fara báðir af stað á ný í hádeginu að íslenskum tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert