Náði fyrsta sigrinum 35 ára gamall

Jason Kokrak kampakátur í Las Vegas í gærkvöld.
Jason Kokrak kampakátur í Las Vegas í gærkvöld. AFP

Bandaríski kylfingurinn Jason Kokrak hafði keppt á 222 mótum í PGA-mótaröðinni í golfi þegar hann mætti á teig í Las Vegas á fimmtudaginn. Í gær stóð hann uppi sem sigurvegari í móti á PGA í fyrsta skipti. 

Kokrak sigraði á CJ Cup-mótinu á Shadow Creek-vellinum og lék frábærlega á lokahringnum í gærkvöld. Lék hann á 64 höggum og lauk keppni á samtals 20 höggum undir pari. 

Kokrak barðist við einn besta kylfing heims um þessar mundir, Xander Schauffele, um sigurinn og hafði betur en þeir voru jafnir þegar þrjár holur voru eftir. 

Kokrak hefur keppt í mótaröðinni í tíu ár og hefur þar af leiðandi gengið nógu vel til að endurnýja keppnisréttinn á hverju ári þótt honum hafi ekki áður tekist að sigra. Hann hefur leikið nokkuð vel að undanförnu og náði 17. sæti á Opna bandaríska meistaramótinu í september. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert