Tímamótasigur hjá Guðmundi Ágústi

Guðmundur Ágúst Kristjánsson vann tímamótasigur í dag.
Guðmundur Ágúst Kristjánsson vann tímamótasigur í dag. mbl.is/Ófeigur

Guðmundur Ágúst Kristjánsson úr GR gerði sér lítið fyrir og vann sigur á Mediter Real Estate Masters-mótinu í golfi sem fram fór í Katalóníu á Spáni og lauk í dag.

Mótið er hluti af Nordic Tour-atvinnumótaröðinni, sem er í þriðja styrkleikaflokki atvinnumótaraða í Evrópu, og er þetta fyrsti sigur Guðmundar Ágústs á mótaröðinni.

Guðmundur Ágúst var í forystu alla þrjá keppnisdagana á Spáni en hann lék af öryggi í dag, á -4 höggum, og endaði samtals á -12 höggum eða þremur höggum á undan næsta manni.

Fram kemur á golf.is að Axel Bóasson sé eftir því sem best sé vitað eini Íslendingurinn sem unnið hafi mót í þessari mótaröð, en hann vann tvö mót árið 2017 og varð stigameistari keppnistímabilsins.

Haraldur Franklín Magnús endaði í 16. sæti á samtals -3 höggum og Andri Þór Björnsson í 40. sæti á +2 höggum. Axel Bóasson komst ekki í gegnum niðurskurðinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert