Koepka hélt Tiger fyrir aftan sig

Brooks Koepka og Adam Scott takast í hendur að loknum …
Brooks Koepka og Adam Scott takast í hendur að loknum hringnum í gær. AFP

Bandaríkjamaðurinn Brooks Koepka sigraði á síðasta risamóti ársins hjá körlunum í golfinu, PGA-meistaramótinu, í St. Louis í gærkvöld. Koepka sigraði á tveimur af fjórum risamótum í ár. 

Koepka lék virkilega vel og var undir 70 höggum alla fjóra dagana og lauk leik á 16 höggum undir pari samtals. Tiger nokkur Woods, næstsigursælasti kylfingur sögunnar, hafnaði í 2. sæti á 14 undir pari. Tiger átti frábæran lokahring og lék þá á 64 höggum eða sex undir pari. 

Baráttuandinn er enn til staðar hjá Tiger Woods en hann …
Baráttuandinn er enn til staðar hjá Tiger Woods en hann hefur ekki unnið risamót í áratug. AFP

Koepka hafði tveggja högga forskot fyrir lokadaginn og var þá á 12 undir pari. Hann gerði ekki þau mistök að reyna að verja forskotið og lék lokahringinn á 66 höggum. Var hann á 69, 63, 66 og 66 í mótinu en Tiger á 70, 66, 66 og 64. 

Ástralinn Adam Scott, sem sigraði á Masters árið 2013, er ekki dauður úr öllum æðum og hafnaði í 3. sæti á 13 undir pari. Scott hefur sjaldan verið í baráttunni um sigurinn á risamótunum síðustu árin en fann taktinn sem þarf til að vera í toppbaráttunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert