Lokahringur Valdísar skilaði 19. sætinu

Valdís Þóra Jónsdóttir.
Valdís Þóra Jónsdóttir.

Atvinnukylfingurinn Valdís Þóra Jónsdóttir úr GL hafnaði í 19. sæti á Ladies European Thailand Championship mótinu sem er liður í Evrópumótaröð kvenna. Mótið fer fram í borginni Pattaya í Tælandi.

Valdís lék fyrstu tvo hringina á höggi undir pari eða 71 talsins en þriðji hringurinn reyndist henni erfiðari er hún lék á 74 höggum. Á lokahringnum tókst henni aftur á móti að klára á 70 höggum eða tveimur undir pari og endar hún á því skori samtals einnig.

Valdís er í 17. sæti á stigalista mótaraðarinnar en hún hefur tekið þátt á átta mótum það sem af er tímabils.

Áhugakylfingurinn Guðrún Brá Björgvinsdóttir úr GK náði svo sínum besta árangri er hún endaði í 19.-26. sæti á Lavaux Ladies mótinu sem er hluti af LET Access mótaröðinni.

Guðrún lék hringina þrjá á samanlagt tveimur höggum yfir pari. Berglind Björnsdóttir úr GR tók einnig þátt á mótinu en komst ekki í gegn niðurskurðinn eftir tvo hringi.

Guðrún Brá Björgvinsdóttir
Guðrún Brá Björgvinsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert