McIlroy segist ná slemmunni

Rory McIlroy á Masters.
Rory McIlroy á Masters. AFP

Norður-Írinn Rory McIlroy segist vera þess fullviss að honum muni takast að ná slemmunni svokölluðu á sínum ferli, þ.e.a.s að sigra á öllum fjórum risamótunum í golfi. 

Til að svo megi verða þarf McIlroy að sigra á Masters en hann hefur sigrað á hinum þremur: Opna bandaríska, Opna breska og PGA-meistaramótinu. 

McIlroy var í síðasta ráshópnum á Masters á dögunum á lokadegi mótsins en frammistaða hans á lokahringnum þótti ekki merkileg. 

„Ég tel það vera 100% öruggt að ég geti komið á Augusta National (völlurinn þar sem Masters fer fram) og unnið. Á síðustu sjö árum hef ég tvívegis komist í síðasta ráshópinn á lokadeginum og ég hef fimm sinnum hafnað á meðal tíu efstu á mótinu. Ég spila vel á þessum velli,“ var haft eftir McIlroy hjá BBC. 

Rory McIlroy er 28 ára gamall en hann virtist á góðri leið með að vinna Masters árið 2011 en tapaði þá fjögurra högga forskoti niður á lokadeginum. Fimm kylfingar hafa unnið slemmuna hjá körlunum: Gene Sarazen, Gary Player, Ben Hogan, Tiger Woods Jack Nicklaus og einn til viðbótar áður en Masters kom til sögunnar: Bobby Jones. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert