Ólafía hefur burði til að vinna mót á LPGA

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. Ljósmynd/GSÍ

Ekki er óvarlegt að segja að árið sem senn er að baki hafi verið viðburðaríkt hjá íslenskum afrekskylfingum. Mörg söguleg afrek voru unnin á árinu.

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir og Valdís Þóra Jónsdóttir urðu fyrstu Íslendingarnir til að keppa á risamóti í íþróttinni. Ólafía tryggði sér af öryggi áframhaldandi keppnisrétt á sterkustu mótaröð heims og Valdís náði besta árangri Íslendings á stöku móti á Evrópumótaröðinni þegar hún hafnaði í 3. sæti. Birgir Leifur Hafþórsson vann stærsta atvinnumannamót sem Íslendingur hefur unnið og skilaði inn besta skori Íslendings í móti á erlendri grundu. Axel Bóasson varð fyrstur Íslendinga til að sigra á mótaröð atvinnumanna.

Að slík tímamót raðist á sama árið er ef til vill tilviljun en Morgunblaðið tók framkvæmdastjóra Golfsambandsins, Brynjar Geirsson, tali í lok árs og ræddi við hann um árangurinn.

„Þetta er mjög magnað. Ég veit að stuðningurinn sem afrekskylfingarnir fá á stóran þátt í þessu öllu saman. Stuðningurinn frá golfklúbbunum og Forskoti afrekssjóði sem dæmi hefur breytt þessu umhverfi. Áður höfum við átt virkilega góða kylfinga af báðum kynjum. En yfirleitt strandaði þetta á því að fólk hafði ekki fjármagn til að halda ferðalaginu áfram þangað til þau voru komin yfir hæðina. Þar af leiðandi hætti margt af þessu fólki og sat ekki við sama borð og kylfingar frá öðrum þjóðum.

Samnefnari með kylfingum eins og Ólafíu Þórunni Kristinsdóttur, Birgi Leifi Hafþórssyni og Axel Bóassyni er að þau voru sigursæl á Íslandi áður en þau fóru utan. Margfaldir unglingameistarar og Íslandsmeistarar. Ég held að það sé ágætis viðmið fyrir fólk sem hugsar um atvinnumennsku að velta fyrir sér hvaða erindi þú átt hafir þú ekki unnið eitthvað hér heima. Ef fólk myndi fletta upp afrekaskrá Ólafíu þá var hún margfaldur unglingameistari áður en hún fór í háskóla í Bandaríkjunum. Þar sá maður líka miklar breytingar hjá henni með auknum aga og leikþroska. Og það má segja um fleiri sem farið hafa til Bandaríkjanna. Svo framarlega sem fólk hefur farið í skóla þar sem metnaður er fyrir golfinu,“ segir Brynjar.

Sjá allt viðtalið við Brynjar Geirsson í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert