Ólafía fékk 1,3 milljónir

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. AFP

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir varð um helgina fyrsti íslenski kylfingurinn til þess að komast í gegnum niðurskurðinn á risamóti og ljúka þar leik þegar hún hafnaði í 48. sæti á Evian-risamótinu í Frakklandi.

Ólafía lék hringina þrjá samtals á þremur höggum yfir pari og fékk fyrir það rúmlega 12 þúsund Bandaríkjadali, en tæplega 1,3 milljónir íslenskra króna. Það er þriðja hæsta upphæðin sem hún hefur unnið sér inn á einu móti í ár.

Hún hefur nú þénað rúmlega 187 þúsund dollara, tæpar 20 milljónir króna, á þeim 20 mótum sem hún hefur tekið þátt í á LPGA-mótaröðinni á sínu fyrsta tímabili.

Ólafía er í 69. sæti peningalistans, en 100 efstu kylfingarnir í lok tímabilsins fá fullan þátttökurétt á næsta tímabili. Sú sem situr í 100. sæti hefur þénað rúmlega 93 þúsund dollara og má ætla að Ólafía hafi þegar tryggt sér sæti á meðal 100 efstu þegar sjö mót eru eftir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert