Fór yfir enn eina hindrunina

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir heldur áfram að skrifa söguna.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir heldur áfram að skrifa söguna. AFP

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir úr Golfklúbbi Reykjavíkur fór yfir enn eina sögulegu hindrunina þetta árið þegar hún lauk leik á síðasta risamóti ársins um helgina. Fyrr á árinu varð Ólafía fyrst Íslendinga til að leika á risamóti í golfi og nú um helgina varð hún fyrst íslenskra kylfinga til að komast í gegnum niðurskurð keppenda á slíku móti. Ólafía fékk því að leika 18. holuna á lokadegi Evian Championship í Frakklandi fyrir framan áhorfendaskarann sem fylgir risamótum í íþróttinni.

Ólafía hafnaði í 48. sæti í mótinu og lék holurnar 54 á 216 höggum sem er þrjú högg yfir pari vallarins. Eins og áður hefur komið fram þurfti að aflýsa fyrsta hring mótsins vegna veðurs en alla jafna eru 72 holur leiknar á risamótunum sem eru fimm talsins í kvennaflokki. Lék hún á 71, 74 og 71 höggi. Ólafía fær í sinn hlut liðlega eina og hálfa milljón íslenskra króna í verðlaunafé en komast þarf í gegnum niðurskurðinn til að fá borgað.

Viðburðaríkt keppnistímabil er langt komið hjá Ólafíu og staða hennar fyrir næsta ár er býsna góð. Hún hefur auk þess náð inn á þrjú risamót en komst ekki í gegnum niðurskurðinn á Opna breska meistaramótinu og Opna bandaríska.

Sjá nánar í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert