„Hefði ekki orðið kát ef ég hefði ekki unnið“

Valdís Þóra Jónsdóttir, nýkrýndur Íslandsmeistari í golfi.
Valdís Þóra Jónsdóttir, nýkrýndur Íslandsmeistari í golfi. Ófeigur Lýðsson

Valdís Þóra Jónsdóttir, nýkrýndur Íslandsmeistari í golfi, lék síðasta hringinn á tveimur höggum yfir pari eða á 10 höggum yfir pari samtals. Guðrún Brá Björgvinsdóttir (GK) varð önnur á 12 höggum yfir pari og Ragnhildur Kristinsdóttir (GR) þriðja á 16 höggum yfir pari.

„Ég byrjaði ekkert frábærlega en samt ekki illa heldur, ég missti stutt pútt á annarri og hraunið var mjög erfitt í þessum vindi. Margar holustaðsetningar sem hefðu mátt vera aðeins sanngjarnari í þessum vindi. Annars var þetta frekar stöðugt, ég lenti ekki mikið í vandræðum þannig séð fyrir utan tvö þrípútt,“ sagði Valdís Þóra að loknum hringnum.

„Ég var búin að setja mér markmið um skor sem var mikið lægra og auðvitað var ég ekki með þetta veður í huga þegar ég setti mér markmiðið en ég hefði viljað leika á betra skori. Ég gerði mörg klaufamistök, missti til dæmis þrjú stutt pútt innan við meter á fjórum hringjum. Svo lentu þær líka í því að klúðra.“

Rúmlega 100 sjálfboðaliðar komu að mótinu og stóð starfsfólk Keilis sig með prýði.

„Umgjörðin er flott og völlurinn frábær. Mér fannst flatirnar að vísu mjög hægar fyrstu tvo dagana miðað við æfingahringinn á fimmtudaginn. Að vísu lék ég frekar seint svo sprettan hefur eflaust verið svolítið mikil. Flatirnar voru miklu betri síðustu tvo dagana.“

Hvernig er tilfinningin?

„Það er alltaf gaman að vinna og gott að fá þriðja Íslandsmeistaratitilinn þannig það er náttúrulega mjög skemmtilegt. Þetta gefur mér auka hvatningu fyrir næstu mót. Ég í rauninni þurfti að vinna þetta mót, ég er á stigi fyrir ofan þær þar sem ég er í atvinnumennsku og þær eru í áhugamennsku. Ég hefði ekki orðið mjög kát ef ég hefði ekki unnið,“ sagði Valdís Þóra og brosti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert