Woods: Var ekki undir áhrifum áfengis

Tiger Woods hefur oft litið betur út.
Tiger Woods hefur oft litið betur út. AFP

Kylfingurinn Tiger Woods neitar því að hafa verið undir áhrifum áfengis þegar hann var handtekinn í Flórída aðfaranótt mánudags.

Wood, sem hefur verið kærður fyrir akstur undir áhrifum, segir að hann hafi ekki verið undir áhrifum áfengis heldur hafi líkami hans brugðist við lyfjum á óvæntan hátt. Hann geri sér fyllilega grein fyrir alvarleika málsins og taki fulla ábyrgð á gjörðum sínum.

Mynd sem lögreglan birti af Woods er honum vart til framdráttar þar sem hann er ógreiddur og órakaður og frekar illa til reika eftir handtökuna í bænum Jupiter.

Samkvæmt BBC segir Woods í tilkynningu að hann hafi ekki gert sér grein fyrir því hvaða áhrif lyfin hefðu á hann. „Ég vil biðja fjölskyldu mína, vini og aðdáendur afsökunar. Ég ætlast til meira af sjálfum mér en þetta.“

Samkvæmt skýrslu lögreglunnar var kylfingurinn, sem er 41 árs, handtekinn skammt frá heimili sínu í Jupiter um þrjúleytið aðfaranótt mánudags og færður í varðhald. Hann var látinn laus klukkan 10:30 um morguninn. 

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert