Ásta fagnaði sigri í Svíþjóð

Ásta Kristinsdóttir, til hægri, fagnaði sigri í Svíþjóð.
Ásta Kristinsdóttir, til hægri, fagnaði sigri í Svíþjóð. Ljósmynd/Fjóla Þrastardóttir

Ásta Kristinsdóttir, landsliðskona í hópfimleikum, bar sigur úr býtum í svokallaðri Faceoff-keppni í hópfimleikum Västerås í Svíþjóð um síðustu helgi.

Ásta varð Evrópumeistari í hópfimleikum með Íslandi á síðasta ári og hlaut silfurverðlaun með liðinu í haust. Ásta hlaut 10.000 sænskar krónur fyrir sigurinn, tæplega 150.000 krónur. Þá fékk hún 18 kílóa bikar sömuleiðis.

Íslenska fimleikakonan framkvæmdi þrefalt heljarstökk á áhaldinu, en hún er á meðal bestu fimleikakvenna landsins. Var hún valin í lið mótsins á EM í Lúxemborg fyrr á árinu.

Í ár var í fyrsta skipti keppt í kvennaflokki en ásamt Ástu keppti æfingafélagi hennar úr Stjörnunni Helena Clausen. Í karlakeppninni átti Ísland tvo keppendur, þá Júlían Mána K. Rakelarson og Ágúst Óliver Erlingsson einnig úr Stjörnunni.

Í umfjöllun fimleikasambands Íslands um mótið er Faceoff-keppni lýst svona:

Faceoff-keppnin hefur verið haldin í Svíþjóð síðan 2014, þar sem besta fimleikafólk í heimi kemur saman og einkennist keppnin af ljósasýningu og dúndrandi bassa tónlist. Tilgangurinn er að sýna hvað mannslíkaminn getur og hvernig fimleikar geta líka litið út.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert