Williams slegin út í endurkomunni

Serena Williams gefur upp í kvöld.
Serena Williams gefur upp í kvöld. AFP/Glyn Krik

Bandaríska tennisstjarnan Serena Williams sneri aftur á stóra svið íþróttarinnar eftir árs fjarveru þegar hún mætti hinni frönsku Harmony Tan á Wimbledon-mótinu á Englandi í kvöld. Hafði Tan að lokum nauman sigur í fyrstu umferð.

Williams sneri aftur á völlinn fyrr í mánuðinum þegar hún tók þátt í tvíliðaleik með Túnisbúanum Ons Jabeur á Eastbourne-mótinu á Englandi.

Hún tók hins vegar síðast þátt í einliðaleik á móti, og það einmitt Wimbledon, fyrir nánast sléttu ári síðan en meiddist þá illa á ökkla í fyrstu umferð gegn Aliaksöndru Sasnovich.

Í kvöld vann Tan 2:1-sigur og þurfti að hafa fyrir því enda Williams í betra standi en margur þorði að vona.

Tan vann fyrsta sett 7:5, Williams vann annað sett örugglega, 6:1, og vann Tan svo þriðja sett 10:7 eftir upphækkun.

Williams niðurlút eftir tapið nauma í kvöld.
Williams niðurlút eftir tapið nauma í kvöld. AFP/Glyn Kirk

Williams er orðin fertug og er sem stendur í sæti númer 1.204 á heimslistanum eftir erfið undanfarin ár og fékk að taka þátt á Wimbledon í ár sem „wildcard.“

Því gæti hafa verið um síðasta Wimbledon-mót hennar að ræða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert