Vilja að allir ólympíufarar verði bólusettir

Japanir vonast til þess að geta haft áhorfendur á Ólympíuleikunum …
Japanir vonast til þess að geta haft áhorfendur á Ólympíuleikunum í sumar með þessum reglum: Ekki hvetja, tala hátt, borða, drekka eða veifa fánum, en þannig hafa reglur verið á stórum íþróttaviðburðum þar í landi. AFP

Samtök íslenskra ólympíufara, SÍÓ, hafa sent Íþrótta- og ólympíusambandi Íslands, ÍSÍ, áskorun um að hafa frumkvæði að því að líklegir þátttakendur á Ólympíuleikunum í Tókýó í sumar, ásamt þjálfurum og fararstjórum, verði bólusettir fyrir kórónuveirunni.

Sundmaðurinn Anton Sveinn McKee er enn sem komið er eini íslenski íþróttamaðurinn sem hefur tryggt sér keppnisrétt á Ólympíuleikunum í sumar. Leikunum var frestað um eitt ár vegna veirunnar en þeir áttu að fara fram í júlí og ágúst 2020.

Í áskorun SÍÓ til ÍSÍ kemur fram að Alþjóðaólympíuhreyfingin, IOC, hvetji allar þjóðir til þess að líklegir ólympíufarar fái forgang varðandi bólusetningu fyrir veirunni til að auka líkurnar á að leikarnir fari fram en blikur hafa verið á lofti þess efnis vegna mikillar útbreiðslu veirunnar víðsvegar um heim um þessar mundir.

Dick Pound frá Kanada, reyndasti stjórnarmaður IOC, sagði í viðtali við Sky News á dögunum að allar þjóðir heims gætu tekið þátt í Ólympíuleikunum ef hægt yrði að bólusetja allt íþróttafólkið áður en þeir hæfust.

„Frá Kanada koma kannski 300 til 400 keppendur. Ef teknir verða frá 300-400 skammtar af bóluefni af þeim milljónum sem eru til reiðu fyrir Kanadabúa til að tryggja að landið geti sent keppendur á Ólympíuleika geri ég ekki ráð fyrir almennum mótmælum gegn því. Hver þjóð þarf að taka ákvörðun og það sjónarmið mun koma fram að við séum að troðast fram fyrir í röðinni, en ég tel að þetta sé raunhæfasta leiðin til að tryggja að leikarnir fari fram,“ sagði Pound.

Fram kemur hjá Sky News að IOC sé að kanna leiðir til þess að tryggja að íþróttafólk þeirra þjóða sem eru skammt á veg komnar hvað bólusetningu varðar geti fengið bóluefnið í tæka tíð fyrir leikana.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert