Eygló Ósk er hætt keppni

Eygló Ósk Gústafsdóttir.
Eygló Ósk Gústafsdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sundkonan Eygló Ósk Gústafsdóttir, sem var kjörin íþróttamaður ársins 2015 af Samtökum íþróttafréttamanna, tilkynnti á samfélagsmiðlum í dag að hún væri hætt keppni.

Eygló, sem er 25 ára gömul, hefur glímt við bakmeiðsli síðustu ár og ekki náð sér á strik en hún vann til tvennra bronsverðlauna í baksundsgreinunum á Evrópumeistaramótinu í 25 metra laug árið 2015 og keppti á Ólympíuleikunum í London 2012 og í Ríó 2016.

Hún er Íslandsmethafi í 100 og 200 m baksundi í 50 metra laug og í 50, 100 og 200 m baksundi og í 1.500 m skriðsundi í 25 metra laug.

Á Facebook-síðu sinni segir Eygló: „Ég veit ekki hvar best er að byrja. Eftir langa umhugsun hef ég loks komist að þeirri niðurstöðu að hætta keppni í sundi. Þetta hefur verið þvílíkt ævintýri og ég myndi ekki skipta á þessum undanförnu tuttugu árum í þessari íþrótt fyrir neitt annað. Ég er svo þakklát öllu því fólki sem ég hef kynnst á leiðinni og fyrir öll þau tækifæri sem ég hef fengið til að sýna einbeitingu mína og hve hart ég hef lagt að mér.

Það eru miklar tilfinningar á bakvið það að eiga ekki eftir að fara aftur á heimsmeistaramót eða Ólympíuleika en ég er afar ánægð með að hafa gefið allt sem ég átti í þessa íþrótt og fengið að upplifa allt sem ég hef gert.

Ég er fyrst og fremst þakklát fjölskyldu minni og einnig Jacky fyrir að koma til Íslands til að þjálfa því hann hjálpaði mér að verða sú sundkona sem ég var. Við eigum í sérstöku sundmanns/þjálfara-sambandi sem ég vona að allir íþróttamenn nái að kynnast á sínum ferli. Ég er líka afar þakklát öllu því fólki sem hefur stutt mig á sinn hátt, það hefur skipt mig öllu máli.

Til vina minna víðsvegar um heim, ég mun sakna ykkar gríðarlega og þið eruð alltaf velkomin í heimsókn til Íslands. Að lokum vil ég segja: TAKK KÆRLEGA, SUND!"

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert