„Þetta er svolítil ráðgáta“

Aníta Hinriksdóttir er að glíma við meiðsli.
Aníta Hinriksdóttir er að glíma við meiðsli. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég er búin að gefa restina af tímabilinu upp á bátinn núna,“ segir hlaupakonan Aníta Hinriksdóttir. Snúin meiðsli hafa verið henni til trafala allt þetta ár og nú er kominn tími til að ráða bót á þeim. Þar með er ljóst að Aníta fer ekki á sitt þriðja heimsmeistaramót í Katar í næsta mánuði, eftir að hafa keppt í 800 metra hlaupi á bæði HM 2015 og 2017. Nú horfir Aníta til Ólympíuleikanna í Tókýó.

Meiðslin sem Aníta hefur glímt við eru í læri, en vegna þeirra hefur hún sáralítið keppt í 800 metra hlaupi í sumar. Hún getur hlaupið, en ekki eins hratt og hún er vön. Hún harkaði þó af sér til að sækja mikilvæg stig fyrir Ísland í Skopje um helgina þar sem hún varð í 2. sæti í bæði 800 og 1.500 metra hlaupi, þrátt fyrir að vera langt frá sínum bestu tímum, þegar Ísland vann til gullverðlauna í 3. deild EM.

„Ég byrjaði á því fyrir þremur vikum að reyna að æfa meiri hraða og við því komu óæskileg viðbrögð í lærinu, svo ég hugsaði að það væri eins gott að byrja bara uppbygginguna fyrir næsta tímabil fyrr. Ég vonast til þess að með því að hvíla mig núna næstu þrjár vikur geti ég byrjað með autt blað. Ef ég myndi halda áfram og reyna við HM gæti þetta setið enn meira í mér í vetur. Það er leiðinlegt að vera ekki hundrað prósent,“ segir Aníta.

Ítarlegt viðtal við Anítu Hinriksdóttur er að finna á íþróttasíðum Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert