Ótrúlegur árangur með fjórtán nýliða

Ari Bragi Kárason var fyrirliði íslenska liðsins í Norður-Makedóníu ásamt …
Ari Bragi Kárason var fyrirliði íslenska liðsins í Norður-Makedóníu ásamt Ásdísi Hjálmsdóttur. mbl.is/Eggert

„Það er frábært að koma heim og fá svona móttökur,“ sagði Ari Bragi Kárason, annar fyrirliði íslenska frjálsíþróttalandsliðsins, í samtali við mbl.is í Leifsstöð á mánudaginn síðasta. Íslenska liðið gerði sér lítið fyrir um síðustu helgi og tryggði sér sigur í þriðju deild Evrópubikarkeppni landsliða í Skopje í Norður-Makedóníu og mun því keppa í annarri deild árið 2021 en keppt er í Evrópubikar landsliða á tveggja ára fresti.

„Þetta var hrikalega óvæntur sigur í hreinskilni sagt. Fyrir mót vorum við búin að fara vel yfir andstæðinga okkar og það var deginum ljósara að Serbía væri með mun sterkara lið en við á pappírunum. Við áttum einhverja toppa inn á milli en þeir voru með áberandi sterkari einstaklinga í sínu liði. Á lokametrunum féll svo allt með okkur og við náðum að sigla fram úr þeim þegar karlasveitin þeirra var dæmd úr leik í 4x400 metra boðhlaupinu. Þetta var ólýsanlegt augnablik og ég skal alveg viðurkenna það að Serbarnir voru langt frá því að vera glaðir.“

Serbía var í efsta sæti keppninnar fyrir lokagreinar mótsins sem voru 4x400 metra boðhlaup karla og kvenna. Íslenska kvennasveitin hafnaði í öðru sæti á meðan karlasveitin hafnaði í þriðja sæti og því virtist alltaf stefna í sigur Serba eftir lokagreinar mótsins.

„Við gerðum okkur grein fyrir því, fyrir boðhlaupin, að við þyrftum á ákveðnu kraftaverki að halda. Svo klikkar síðasti maðurinn í boðhlaupssveitinni hjá þeim alveg undir restina þegar hann gerir barnaleg mistök og stígur út fyrir línuna. Dómararnir á vellinum sjá þetta og leggja fram formlega kvörtun sem endar svo með því að þeir eru dæmdir úr leik. Það þýðir að við fengum fullt af stigum í hús á meðan þeir fengu ekkert sem gerði í raun bara útslagið. Það tók smá tíma að fá þetta staðfest því Serbarnir kærðu niðurstöðu dómarans og það tók því einhvern klukkutíma að fá lokaniðurstöðu í málið.“

Alls voru fjórtán nýliðar í íslenska hópnum í ár en alls er keppt í 40 greinum á mótinu, 20 í karlaflokki og 20 í kvennaflokki.

„Ef við skoðum hversu margir nýliðar voru í hópnum í ár þá er árangur liðsins í raun ótrúlegur. Það er ekkert grín að stíga upp í 40° hita gegn þaulreyndum íþróttamönnum sem hafa gert þetta hundrað sinnum áður. Meira að segja reynslumesta fólkið í okkar liði er ekki vant því að keppa við svona hita og aðstæður og þess vegna eiga nýliðarnir í hópnum risastórt hrós skilið. Framtíðin er mjög björt því við erum mjög sterkt fólk, undir tvítugu, sem er að keppa á fullu og þetta eru krakkar sem eru að stíga sín fyrstu skref í frjálsum íþróttum og þau sýndu það í Skopje hversu miklum karakter þau búa yfir,“ sagði Ari Bragi í samtali við mbl.is.

Íslensku keppendurnir fengu góðar móttökur í Leifsstöð við komuna til …
Íslensku keppendurnir fengu góðar móttökur í Leifsstöð við komuna til landsins. mbl.is/Eggert
Ari Bragi Kárason og Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir tóku við viðurkenningu …
Ari Bragi Kárason og Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir tóku við viðurkenningu fyrir hönd íslenska landsliðshópsins í Leifsstöð á mánudaginn. mbl.is/Eggert
Ari Bragi Kárason ásamt Frey Ólafssyni, formanni FRÍ.
Ari Bragi Kárason ásamt Frey Ólafssyni, formanni FRÍ. mbl.is/Eggert
Kolbeinn Höður Gunnarsson var í 4x100 metra boðhlaupssveit íslenska liðsins …
Kolbeinn Höður Gunnarsson var í 4x100 metra boðhlaupssveit íslenska liðsins sem hafnaði í fyrsta sæti. mbl.is/Eggert
Glódís Edda Þuríðardóttir var nýliði í hópnum en hún var …
Glódís Edda Þuríðardóttir var nýliði í hópnum en hún var í 4x400 metra boðhlaupssveit íslenska liðsins sem hafnaði í öðru sæti. mbl.is/Eggert
Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir var í báðum boðshlaupssveitum Íslands á mótinu …
Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir var í báðum boðshlaupssveitum Íslands á mótinu og þá fékk hún gull í 200 metra hlaupi. mbl.is/
Vigdís Jónsdóttir fékk bronsverðlaun í sleggjukasti í Skopje.
Vigdís Jónsdóttir fékk bronsverðlaun í sleggjukasti í Skopje. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert