Fékk sólsting eftir frækinn sigur með lánsstöng

Hulda Þorsteinsdóttir í keppninni í Skopje.
Hulda Þorsteinsdóttir í keppninni í Skopje. Ljósmynd/FRÍ

Stangarstökkvarinn Hulda Þorsteinsdóttir úr ÍR upplifði mikla rússíbanareið í Evrópubikarkeppni landsliða í frjálsum íþróttum sem fram fór í Skopje í Norður-Makedóníu um síðustu helgi. Hulda fagnaði sigri í stangarstökki kvenna en hún stökk hæst 3,60 metra og vann öruggan sigur en Eleonora Rossi frá San Marínó hafnaði í öðru sæti með stökk upp á 3,26 metra.

Stangirnar hennar Huldu skiluðu sér ekki á réttum tíma fyrir keppnina og því þurfti stangarstökkvarinn að stökka með lánsstöng sem var allt of lítil fyrir hana en íslenska liðið gerði sér lítið fyrir og tryggði sér efsta sætið í þriðju deildinni eftir harða keppni við Serbíu og keppir því í annarri deild Evrópubikarkeppninnar sumarið 2021.

„Ég var með besta árangurinn í stangarstökkinu komandi inn í mótið og þess vegna kom það mér kannski ekki neitt sérstaklega á óvart að hafa hafnað í fyrsta sæti þar sem mér fannst ég eiga að vinna greinina. Að sama skapi gat ég ekki keppt með mínar stangir þar sem þær skiluðu sér ekki til landsins á tilsettum tíma og ég þurfti því að keppa á pínulítilli stöng sem var allt of lítil fyrir mig. Þar af leiðandi þurfti ég að stytta atrennuna mína niður í sex skref til þess að draga sem mest úr hraðanum þar sem stöngin var í mýkri kantinum.

Þegar þú ert kominn í svona sirkuskúnstir þá er þetta í raun ekki stangarstökkið sem þú ert vanur að keppa í þannig að allar forsendur keppninnar breyttust í raun. Það eina sem maður getur gert í svona aðstæðum er að gera gott úr hlutnum, brosa út í annað og vona það besta. Í ljósi alls sem átti sér stað í aðdraganda keppninnar er ég mjög sátt með að hafa fagnað sigri í greininni því hinar stelpurnar tóku 10 til 15 metrum lengri atrennu en ég.“

Nánar er rætt við Huldu og fjallað um Evrópubikargull Íslands á íþróttasíðum Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert