Íslandsbikar á loft á Akureyri

Akureyrarkonur fagna meistaratitlinum.
Akureyrarkonur fagna meistaratitlinum. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Skautafélag Akureyrar varð í kvöld Íslandsmeistari í íshokkí kvenna 2019 með því að sigra lið Reykjavíkur örugglega í öðrum úrslitaleik liðanna sem fram fór á Akureyri, 7:0.

SA vann fyrsta leikinn í Skautahöllinni í Laugardal í fyrrakvöld, 4:1, og hafði áður unnið allar tólf viðureignir liðanna í Hertz-deildinni í vetur.

Silvía Björgvinsdóttir skoraði eina mark fyrsta leikhluta en í öðrum hluta bættu Hilma Bergsdóttir, Silvía og Sunna Björgvinsdóttir við mörkum, 4:0.

Í þeim þriðja og síðasta skoraði Eva Karvelsdóttir fimmta markið og Silvía bætti við tveimur í viðbót áður en yfir lauk og skoraði þar með fjögur mörk ásamt því að eiga eina stoðsendingu.

Íslandsmeistarar 2019, lið SA
Íslandsmeistarar 2019, lið SA Ljósmynd/Þórir Tryggvason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert