Vorum komnar með bakið upp við vegg

Elísabet Einarsdóttir, fyrirliði HK, fagnar sigri liðsins gegn KA ásamt …
Elísabet Einarsdóttir, fyrirliði HK, fagnar sigri liðsins gegn KA ásamt samherjum sínum í þriðja leik liðanna á Akureyri. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

„Það hefur verið mikil barátta á milli þessara liða og þessi sigur í kvöld var þess vegna extra sætur,“ sagði Elísabet Einarsdóttir, fyrirliði HK, í samtali við mbl.is  eft­ir 3:1-sigur liðsins gegn KA í fjórða leik liðanna í úr­slit­um Íslands­móts kvenna í blaki í Fagra­lundi í kvöld. Staðan í ein­víg­inu er nú 2:2 og þurfa liðin að mæt­ast í hrein­um úr­slita­leik um Íslands­meist­ara­titil­inn á Ak­ur­eyri þann 24. apríl.

„Við vorum búnar að tapa fyrir þeim fjórum sinnum í röð en erum núna búnar að vinna tvo leiki í röð en þetta er langt frá því að vera búið. Við munum mæta grjótharðar til leiks í oddaleikinn og það er allt undir núna. Við vorum komnar með bakið upp við vegg en ég held satt best að segja að við séum bestar undir smá pressu. Við þurftum að stíga upp og við gerðum það, þrátt fyrir að vera með ungt lið.“

HK vann fyrstu og aðra hrinu nokkuð sannfærandi en KA kom tilbaka í þriðju hrinu og vann öruggan sigur, 25:16.

„Það kom smá kæruleysi upp í okkur í þriðju hrinu en mér fannst við svara því vel í fjórðu hrinu. Við náum góðu forskoti en þeim tekst að jafna metin en við héldum haus. KA-liðið hættir aldrei og þær gefast aldrei upp og þær héldu áfram að pressa og pressa og það má ekki slaka neitt á móti jafn góðum andstæðingi og þeim.“

HK lenti 2:0-undir í úrslitaeinvíginu en hefur tekist að koma tilbaka og jafna metin og Elísabet telur að viljastyrkurinn hafi fleytt liðinu langt í síðustu tveimur leikjum.

„Oddaleikurinn leggst gríðarlega vel  í mig og ég get satt best að segja ekki beðið. Eins og ég sagði áðan þá töpuðum við fjórum leikjum í röð gegn þeim og það er alls ekki auðvelt. Viljinn hjá okkur hefur svo sannarlega verið til staðar í síðustu tveimur leikjum og við höfum mikla trú á verkefninu sem er framundan,“ sagði Elísabet Einarsdóttir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert