Óskiljanlegt hvernig við mætum til leiks

Hulda Elma Eysteinsdóttir, fyrirliði KA, fagnar bikarmeistaratitli liðsins ásamt samherjum …
Hulda Elma Eysteinsdóttir, fyrirliði KA, fagnar bikarmeistaratitli liðsins ásamt samherjum sínum í vetur. mbl.is//Hari

„Þetta er mjög svekkjandi en við getum sjálfum okkur um kennt,“ sagði Hulda Elma Eysteinsdóttir, fyrirliði KA, í samtali við mbl.is eftir 3:1-tap liðsins gegn HK í fjórða leik liðanna í úrslitum Íslandsmóts kvenna í blaki í Fagralundi í kvöld. Staðan í einvíginu er nú 2:2 og þurfa liðin að mætast í hreinum úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn á Akureyri þann 24. apríl.

„Við mættum ekki til leiks í kvöld og gerðum ekkert til þess að stoppa þær. Þetta leit kannski út eins og einhver taugatitringur í okkur en mér fannst það ekki endilega vera málið. Við sýndum ekki okkar rétta andlit, nema kannski í þriðju hrinu, og HK er með mjög gott lið og þær gengu bara á lagið.“

KA komst í 2:0 í einvígi liðanna um Íslandsmeistaratitilinn en HK hefur nú tekist að jafna metin.

„Við höfum alltaf borið mikla virðingu fyrir HK og við vissum það fyrirfram að við þyrftum virkilega að hafa fyrir því að leggja þær að velli. Það er í raun bara óskiljanlegt, hvernig við mætum til leiks í kvöld, en við mætum brjálaðar í oddaleikinn, því get ég lofað.“

Þrátt fyrir tapið er Hulda spennt að spila hreinan úrslitaleik á Akureyri eftir viku.

„Það er sama pressa á báðum liðum núna fyrir oddaleikinn. Þær voru komnar með bakið upp við vegg í síðasta leik og þurftu að sækja, líkt og í dag, og það verður gaman að mæta þeim í hreinum úrslitaleik á Akureyri eftir viku,“ sagði Hulda Elma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert