Óvænt tap deildarmeistaranna

Deildarmeistararnir töpuðu óvænt fyrir Aftureldingu.
Deildarmeistararnir töpuðu óvænt fyrir Aftureldingu. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

Deildarmeistarar KA töpuðu sínum öðrum leik í Mizuno-deild karla í blaki í dag er Afturelding fór til Akureyrar og vann 3:1-sigur, þrátt fyrir að KA hafi unnið fyrstu hrinuna, 26:24. 

Afturelding svaraði með sigrum í næstu þremur hrinum og í leiknum. Afturelding jafnaði í 1:1 með 25:22-sigri í annarri hrinu og tryggði sér sigurinn með 25:17 og 25:18-sigrinum í næstu tveimur hrinum.

Piotr Kempisty skoraði 28 stig fyrir Aftureldingu og Alexander Arnar Þórisson gerði 15 stig fyrir KA. Afturelding er í þriðja sæti deildarinnar með 16 stig eftir 12 leiki en KA er með 32 stig á toppnum og nú þegar orðið deildarmeistari. 

HK vann öruggan 3:0-útisigur á Álftanesi. HK vann allar þrjár hrinurnar nokkuð sannfærandi; 25:19, 25:20 og 25:14. Theodór Óskar Þorvaldsson skoraði 22 stig fyrir HK og Jordan Darlington gerði 11 stig fyrir Álftanes. HK er í öðru sæti deildarinnar með 21 stig og Álftanes í sætinu fyrir neðan með 14 stig. 

KA upp í toppsætið

KA er komið upp í toppsætið í Mizuno-deild kvenna eftir nokkuð öruggan 3:1-sigur á Aftureldingu. KA vann tvær fyrstu hrinurnar, 25:16 og 25:21, en Afturelding minnkaði muninn með 25:21-sigri í þriðju hrinu. KA tryggði sér hins vegar sigur með 25:15-sigri í fjórðu hrinunni. 

Helena Kristín Gunnarsdóttir var stigahæst hjá KA með 22 stig og Paula Olmo bætti við 20 stigum. Velina Apostolova var stigahæst hjá Aftureldingu með 14 stig. KA er nú með 34 stig, einu stigi meira en HK, sem er í öðru sæti en Afturelding er í fjórða sæti með 15 stig. 

Völsungur kemur þar á eftir í þriðja sæti með 21 stig eftir 3:0-útisigur á Þrótti Neskaupstað. Hrinurnar þrjár voru allar spennandi en Völsungur hafði betur í þeim öllum, 25:19, 26:24 og 25:21. Þróttur er í botnsætinu með 13 stig. 

KA og HK eru í harðri toppbaráttu.
KA og HK eru í harðri toppbaráttu. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert