Björninn vann meistarana í vítakeppni

Björninn vann góðan sigur á SA í vítakeppni.
Björninn vann góðan sigur á SA í vítakeppni. mbl.is/Árni Sæberg

Björninn hafði betur gegn SA í Hertz-deild karla í íshokkíi í kvöld eftir framlengdan leik og vítakeppni. Falur Guðnason reyndist hetja Bjarnarins þar sem hann skoraði eina mark vítakeppninnar. 

Jordan Steger kom SA yfir á 7. mínútu með eina marki fyrsta leikhlutans. Einnig var aðeins eitt mark skorað í öðrum leikhluta er Falur Guðnason jafnaði, en í þriðja leikhluta kom Steger norðanmönnum aftur yfir. Kristján Kristinsson jafnaði hins vegar korteri fyrir leikslok og þar við sat í venjulegum leiktíma. 

Ekkert mark var skorað í framlengingunni og því réðust úrslitin í vítakeppni, þar sem Falur skoraði sitt annað mark í leiknum og sigurmarkið. Dagur Jónasson, Thomas Stuart-Dant og Jordan Steger klikkuðu allir á víti hjá SA. 

Deildarmeistarar SA eru með 29 stig eftir leik kvöldsins en Björninn er í þriðja sæti með 12 stig. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert