„Risastór bæting fyrir mig“

Anton Sveinn McKee í Hangzhou í morgun, þegar hann setti …
Anton Sveinn McKee í Hangzhou í morgun, þegar hann setti tvö Íslandsmet. Ljósmynd/Simone Costrovillari

„Sundið í morgun gekk bara svakalega vel,“ segir Anton Sveinn McKee sem bætti tvö Íslandsmet og komst í undanúrslit í 100 metra bringusundi á heimsmeistaramótinu í 25 metra laug í Kína í dag.

Anton bætti Íslandsmetin bæði í 50 og 100 metra bringusundi, svo hratt fór hann fyrri helming sundsins í undanrásum í morgun, eða í nótt að íslenskum tíma. Hann synti fyrri 50 metrana á 26,98 sekúndum og lauk 100 metra sundinu á 57,57 sekúndum, sem er meira en sekúndu undir hans besta tíma fram að því.

„Maður fór spenntur ofan í laugina og tókst að komast í bakkann hratt. Ég útfærði sundið ekki alveg nógu vel, og var því farinn að spóla aðeins í lokin, en samt var tíminn rosalega góður. Þetta er risastór bæting fyrir mig svo ég er mjög glaður með það,“ segir Anton við mbl.is. Hann synti svo í undanúrslitum í dag, eða í kvöld að staðartíma, og varð í 16. sæti á 57,94 sekúndum en aðeins átta efstu keppendur komust í úrslit.

„Um kvöldið lögðum við upp með að reyna að láta sundtökin vera aðeins lengri, og nýta meiri kraft. Ég næ að renna vel í bringusundinu og vildi notfæra mér það, en gerði kannski of mikið í því. Ég var þannig séð með löng tök, og maður veltir fyrir sér hvort ég hefði frekar átt að taka fleiri tök en maður hefur náttúrulega ekki verið að keppa það mikið í 25 metra laug. Burtséð frá því þá voru tímarnir mjög góðir, bæði í morgun- og kvöldsundinu, enda hafði ég aldrei synt undir 58 sekúndum,“ segir Anton.

„Verð að negla á þetta á fimmtudaginn“

Næst á dagskrá hjá Antoni er 200 metra bringusund á fimmtudag, eða aðfaranótt fimmtudags ef miðað er við íslenskan tíma. Anton hóf afreksferil sinn sem langsundsmaður, keppti til að mynda í 1.500 metra skriðsundi og 400 metra fjórsundi á Ólympíuleikunum í London 2012, og 200 metra bringusundið hefur verið hans sterkasta grein síðustu ár. Þannig varð hann í 18. sæti í 200 metra bringusundi á Ólympíuleikunum í Ríó 2016.

„Vissulega hefur 200 metra sundið verið mín sterkasta grein en ég hef ekki getað lagt eins mikla áherslu á það og ég þyrfti. Ég virðist hins vegar eiga mikinn kraft inni og það verður gaman að sjá hvað gerist. Það komast aðeins átta efstu í 200 metra sundinu í úrslit, þar eru engin undanúrslit, svo ég verð að „negla á þetta“ á fimmtudaginn. Þetta var rosalega skemmtilegur dagur, að komast áfram hérna á stærsta sviðinu og sjá að ég er kominn í gott form aftur, og ég vil fylgja því eftir,“ segir Anton.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert