Þær toppuðu en það dugði ekki

Stúlknalandsliðið hlaut bronsverðlaun á EM í hópfimleikum í kvöld. Hér …
Stúlknalandsliðið hlaut bronsverðlaun á EM í hópfimleikum í kvöld. Hér eru þær í dansi. Ljósmynd/Kristinn Arason

„Eins og ég hafði lofað eftir undankeppnina  þá náði liðið að toppa í úrslitunum og stúlkurnar skiluðu sínu en það dugði ekki til sigurs. Í raun eru það vonbrigði að eins góð frammistaða og þetta var hafi bara, innan gæsalappa, í þriðja sæti,“ sagði Jónas Valgeirsson, einn þjálfara stúlknalandsliðsins í samtali við mbl.is í kvöld eftir að liðið hafnaði í þriðja sæti á Evrópumeistaramótinu í hópfimleikum í íþróttahöllinni í Odivela í Portúgal.

„Stúlkurnar eiga eftir að hugsa til baka eftir nokkra mánuði eða jafnvel ár og komast að því að þátttakan var mjög góð reynsla. Þetta er fyrsta stóra skrefið hjá þeim inn í flottan fimleikaferil,“ sagði Jónas ennfremur.

Það lita sem vantaði upp á til þess að skáka danska liðinu var í dansinum þar sem danska liðið gerði mjög vel og fékk yfir 21.100 stig, 1.100 stigum meira en íslenska liðið fékk í einkunn fyrir sinn dans. Þegar upp var staðið munaði 0.525 stigum. Jónas segir að alltaf hafi verið að ljóst að Danir ætti inni í dansinum frá undankeppninni.   „Ég veit að við áttum aðeins betri dans í undanúrslitum og eitthvað af stökkum hjá okkur voru betri í undankeppninni. En yfirhöfuð bætti liðið sig frá undankeppninni og það skiptir miklu máli.

Ég er viss um að stúlkurnar hengja upp bronsverðlaunin sín þegar þær koma heim. Einnig veit ég það að bronsið verður þeim hvatning til þess að leggja enn meira á sig til þess að hafa annan lit á verðlaunapeningnum næst,“ sagði Jónas Valgeirsson, einn þjálfara stúlknalandsliðsins í hópfimleikum í samtali við mbl.is í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert