Niðurstaðan er svekkjandi

Blandaða unglingasveitin hafnaði í 4. sæti á EM í hópfimleikum …
Blandaða unglingasveitin hafnaði í 4. sæti á EM í hópfimleikum í Portúgal í dag. Ljósmynd/Kristinn Arason

„Það vantaði smá upp á þetta hjá okkur,“ sagði Sólveig Rut Þórarinsdóttir einn liðsmanna blönduðu unglingasveitar Íslands sem hafnaði í fjórða sæti í úrslitum Evrópumeistaramótsins í hópfimleikum fyrr í dag. Sólveig Rut sagði að aðeins hefði vantað upp á hjá sveitinni í dansinum og í trampolínstökkunum. „En við negldum fíberinn, stökkin það er að segja,“ sagði Sólveig Rut.

„Niðurstaðan er svekkjandi en það er ekkert við því að gera. Við hefðum þurft að gera betur í tveimur af greinunum þremur til þess að hafna í þriðja sæti,“ sagði Sólveig Rut.

Betur fór en áhorfðist hjá Júlían Mána Rakelarsyni sem stökk síðastur í röðinni í trampolínstökkunum og virtist meiðast í afstökkinu. Hann meiddist sem betur fer ekki, að sögn Sólveigar Rutar, eins og það leit út í fyrstu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert