Ekki fleiri maraþonleikir á Wimbledon

Serbinn Novak Djokovic er ríkjandi Wimbledon-meistari í einliðaleik karla.
Serbinn Novak Djokovic er ríkjandi Wimbledon-meistari í einliðaleik karla. AFP

Ekki verða spilaðir fleiri maraþonleikir á Wimbledon-mótinu í tennis en þetta staðfestu forráðamenn mótsins í dag. Kevin Anderson, sem lék til úrslita á Wimbledon í ár, vann Bandaríkjamanninn John Isner í oddasetti í undanúrslitum Wimbledon-mótsins í ár en oddasettið stóð yfir í tæpa þrjá tíma og lauk með 26:24-sigri Anderson.

Anderson, sem er frá Suður-Afríku var mjög þreyttur þegar kom að úrslitaleiknum við Serbann Novak Djokovic og hafði Serbinn að lokum betur, 3:0. Leikur Anderson og Isner í undanúrslitunum var næstlengsti leikur í sögu Wimbledon-mótsins og hafa forráðamenn mótsins því ákveðið að fari svo, að staðan verði 12:12 í fimmta setti, muni oddalota skera úr um sigurvegarann.

Oddalotur á Wimbledon-mótinu geta því ekki lengur endað 26:24, líkt og hjá Isner og Anderson í undanúrslitunum í ár, heldur mun sigurvegarinn vinna 13:12 eftir oddalotu en reglan tekur gildi í öllum keppnum Wimbledon-mótsins, bæði hjá körlum, konum og í tvíliðaleik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert