Blandaða sveitin náði sér ekki á flug

Blandaða unglingasveitin í dansinum í keppninni í dag.
Blandaða unglingasveitin í dansinum í keppninni í dag. Ljósmynd/Kristinn Arason

Blönduð unglingasveit Íslands hafnaði í 4. sæti í úrslitum á Evrópumeistaramótinu í hópfimleikum í dag. Liðið fékk samtals 47.000 stig en því miður þá náði sveitin sér ekki á sama flug í úrslitunum og hún gerði í undanúrslitum. Danir urðu Evrópumeistara, Svíar voru í öðru sæti og Norðmenn voru þriðja.

Danir fengu 52.800 stig, Svíar 52.100, Norðmenn 47.750. Breska sveitin hafnaði í fimmta  sæti og sú hollenska varð sjötta. Bretar kærðu niðurstöðuna en höfðu lítið upp annað upp úr krafsinu en að heildareinkun þeirra lækkaði en þeir gerðu sér vonir um að kæra þeirra vegna lágrar einkunnar í dansinum yrði endurskoðuð þeim til hækkunnar þannig að þeir næðu fjórða sætinu. 

Blandaða sveitin byrjaði keppnina í dag á dansi. Jafnvægið hjá sumum liðsmanna var ekki upp á það besta í upphafi og svo virtist sem spenna væri í ungmennunum. Þau unnu sig út erfiðleikunum og luku dansinum á sannfærandi og jákvæðan hátt. Einkunnin var 15.900, 0.400 lægri en í undankeppninni á miðvikudagskvöldið. Dönum  gekk best í dansinum og fengu 18.750 þrátt fyrir að einn liðsmann félli á afturendann í dansinum.

Íslenska sveitin reið á vaðið af sveitunum sex í annarri umferð. Komið var að dýnustökkum. Skemmst er frá því að segja að þau tókst eins og best var á kosið, stílhreint og flott. Þar af leiðandi var ástæða til þess að kætast í herbúðum Íslendinga í íþróttahöllinni þegar sveitin hafði lokið stökkum sínum átján og skokkaði var keppnisvellinum.  Einkunnin var 16.100, 0.200 hærri en í undankeppninni.

Í lokaumferðinni, trampolínstökkum, gekk íslensku sveitinni ekki sem best. Nokkuð var um föll og sá sem var síðastur í stökkröðinni í lokumferðinni stakk við í lendingu og féll aftur fyrir sig. Sem betur fer  á mjúka dýnu og skokkaði í burtu eftir að hugað hafði verið stuttlega að honum.  Svo var að sjá að hann hefði fengið krampa í fótinn því ekki var laust við að hann stingi við í lokaskrefum sínum að trampolíninu.

Meiðsli eru því miður fylgifiskur íþrótta og við þessu er ekkert að gera annað en að jafna sig og ná heilsu á nýjan leik. Niðurstaðan var sú að hópurinn fékk 15.000 stig fyrir trampolínstökkin og samtals fékk hópurinn 47.000 stig. Í undankeppninni fékk íslenska sveitin 15.950 fyrir trampolínstökkin og samtals 48.150 stig og var í fjórða sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert