Eigum ágæta möguleika

Einar Ingi Eyþórsson, Alexander Sigurðsson og Hrafnhildur Magney Gunnarsdóttir og …
Einar Ingi Eyþórsson, Alexander Sigurðsson og Hrafnhildur Magney Gunnarsdóttir og fleiri í stökkkeppninni í dag. Ljósmynd/Kristinn Arason

„Ég er mjög ánægður með hversu vel okkur gekk þótt ég sé viss um að við eigum talsvert meira inni en við sýndum að þessu sinni,“ sagði Alexander Sigurðsson, einn liðsmaður blönduðu sveitar fullorðinna sem tryggði sér sæti í úrslitum Evrópumótsins í hópfimleikum í dag með framúrskarandi frammistöðu. Sveitin hafnaði í þriðja sæti en afar litlu munaði á íslensku sveitinni og þeirri sænsku sem varð efst.

„Það var sáralítill munur á efstu liðunum þremur svo ég tel að við eigum öll nokkuð svipaða möguleika á að vinna í úrslitunum á laugardaginn,“ sagði Alexander og bætti við. „Við verðum bara að núllstilla okkur og gera enn betur á laugardaginn. Það eru nokkur lítil atriði sem skipta máli þegar upp er staðið. Meðal þessara atriða eru lendingar í stökkum að lenda ekki of djúpt heldur hátt uppi og fallega. Eins eru nokkur atriði sem má gera betur í dansinum, s.s. þarf jafnvægið að vera örlítið betra á stundum. Ég tel okkur eiga mjög góða möguleika á að vinna mótið.

Annars var þetta mjög gaman og ég er mjög ánægður. Næsta skref er að horfa á það sem eftir er  af keppninni, hvílast vel í kvöld og búa okkur á morgun sem best undir stóru stundina á laugardaginn. ,“ sagði Alexander Sigurðsson, einn liðsmanna blandaðrar sveitar Íslands á Evrópumótinu í hópfimleikum i Portúgal.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert