Ekkert óvanar að fara í oddaleik

Úr leik Aftureldingar og Þróttar í kvöld.
Úr leik Aftureldingar og Þróttar í kvöld. mbl.is/Hari

„Þetta var mjög svekkjandi, hérna á okkar heimavelli þar sem við eigum alveg að geta tekið þær,“ sagði Velina Apostolova, fyrirliði Aftureldingar, eftir 3:1 tap fyrir Þrótti frá Neskaupstað í öðrum leik liðanna í úrslitarimmunni um Íslandsmeistaratitilinn í blaki kvenna í kvöld.

„Það er allt annað en að vera fyrir austan með 200 Norðfirðinga öskrandi á sig, en hér á heimavelli eigum við að geta tekið þær,“ sagði Velina.

Hún játti því að það væri erfitt að tapa tveimur hrinum alveg í lokin eftir að hafa verið lengi yfir. „Jú, þegar staðan er svona jöfn í lokin þá getur þetta lent hvoru megin sem er. Við verðum oft dálítið stressaðar í þeirri stöðu og gerum heimskuleg mistök. Við þurfum að reyna að laga það, því það er herslumunurinn á þessum tveimur liðum. Þær halda haus.

Ég held að í þessum tveimur leikjum sem búnir eru í úrslitunum séum við að sjá varnir sem við höfum ekkert séð mikið í vetur. Bæði lið að berjast í gólfinu og enginn að gefast upp.

Okkur langar að sjálfsögðu að fá þær aftur í heimsókn á sunnudaginn. Við erum ekkert óvanar að fara í oddaleik, höfum gert það síðustu þrjú árin eða eitthvað og héðan af þá ætlum við bara að halda okkur við það plan,“ sagði fyrirliðinn sem átti alveg hreint ljómandi góðan leik í kvöld. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert