Rússi grunaður um lyfjamisnotkun

Rússneskir keppendur keppa sem sjálfstæðir ólympískir íþróttamenn á Vetrarólympíuleikunum í …
Rússneskir keppendur keppa sem sjálfstæðir ólympískir íþróttamenn á Vetrarólympíuleikunum í Pyeongchang. AFP

Rússneskur íþróttamaður er grunaður um að hafa fallið á lyfjaprófi á Vetrarólympíuleikunum sem fram fara í Pyeonchang í Suður-Kóreu þessa dagana samkvæmt frétt rússneska fréttamiðilsins Tass. Þetta kemur fram á BBC.

160 keppendur frá Rússlandi keppa á leikunum sem hlutlausir ólympíukeppendur frá Rússlandi þar sem Rússum var bannað að senda á þeirra vegum keppendur til leiks sem fulltrúa landsins vegna kerfisbundinnar lyfjamisnotkunar á Vetrarólympíuleikunum í Sochi í Rússlandi fyrir fjórum árum.

Nokkrir rússneskir fjölmiðlar hafa sagt frá því að rússneska liðinu hafi verið tilkynnt um mögulegt brot gegn lögum um lyfjamisferli af Alþjóðaólympíunefndinni en beðið er eftir niðurstöðu úr svokölluðu B-sýni sem ætti að staðfesta hvort grunurinn sé á rökum reistur.

Enginn keppandi hefur verið nafngreindur og Alþjóðaólympíunefndin hefur neitað að tjá sig um málið og segir að sjálfstæð nefnd sjái um lyfjapróf í Pyeonchang.

Þrátt fyrir að Rússum sé bannað að keppa á leikunum í Suður-Kóreu var þarlendum íþróttamönnum sem gátu sannað að þeir hefði ekki gerst sekir um lyfjamisnotkun leyft að keppa á leikunum en þeir urðu á endanum 169 talsins. Er sá hópur þrátt fyrir allt þriðji stærsti hópurinn frá einu landi á eftir Kanadamönnum og Bandaríkjamönnum.

Lag Vetrarólympíuleikanna er spilað ef íþróttamaður frá Rússlandi vinnur á leikunum í stað þjóðsöngs Rússa og þjóðfána Rússlands er auk þess ekki flaggað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert