Snorri og Freydís skíðafólk ársins

Freydís Halla Einarsdóttir er skíðakona ársins.
Freydís Halla Einarsdóttir er skíðakona ársins. AFP

Skíðasamband Íslands hefur valið skíðakonu og skíðamann ársins 2017. Skíðakona ársins er Freydís Halla Einarsdóttir (alpagreinar) og skíðamaður ársins er Snorri Einarsson (skíðaganga).

Skíðakona ársins - Freydís Halla Einarsdóttir

Freydís átti mjög góðan vetur í brekkunum á árinu. Hún náði í fyrsta sinn, á sínu öðru tímabili í Norður-Ameríku bikarnum, að komast í topp 10 þegar hún náði 6. sæti í svigi í Burke Mountain í Bandaríkjunum.

Þá varð hún 15 sinnum á tímabilinu í topp 10 á alþjóðlegum mótum erlendis og þar af fimm sinnum í einum af efstu þremur sætunum og vann eitt mót, í stórsvigi í Gore Mountain í Bandaríkjunum. Einnig endaði hún í 11. sæti á bandaríska meistaramótinu í svigi sem var mjög sterkt.

Hún varð í níunda sæti í undankeppni heimsmeistaramótsins í St. Moritz í stórsvigi og fylgdi þeim árangri eftir með því að lenda í 47. sæti í aðalkeppninni.

Hún varð einnig þrefaldur Íslandsmeistari, í stórsvigi, alpatvíkeppni og samhliðasvigi.

Hún bætti sig um 260 sæti á heimslista FIS í stórsvigi á árinu og er í 420. sæti. Þá er hún í 202. sæti á heimslista FIS í svigi.

Sæti á heimslista:

  • Svig: 202. sæti
  • Stórsvig: 420. sæti

Helstu úrslit:

  • 6. sæti – Svig, Norður-Ameríkubikar, Burke Mountain, Bandaríkjunum, 05.01. 2017
  • 3. sæti – Svig, háskólamót, Whiteface Mountain, Bandaríkjunum 21.01. 2017
  • 1. sæti – Stórsvig, FIS mót, Gore Mountain, Bandaríkjunum 23.01. 2017
  • 6. sæti – Svig, háskólamót, Cannon Mountain, Bandaríkjunum 28.01. 2017
  • 5. sæti – Stórsvig, háskólamót, Stowe Mountain Resort, Bandaríkjunum 03.02. 2017
  • 9. sæti – Stórsvig, undankeppni, heimsmeistaramót St. Moritz Sviss, 13.02. 2017
  • 47. sæti – Stórsvig, heimstmeistaramót, St. Moritz Sviss, 16.02. 2017
  • 5. sæti – Svig, FIS mót, Sunday River Resort, Bandaríkjunum, 09.12. 2017
  • 2. sæti – Svig, FIS mót, Sunday River Resort, Bandaríkjunum, 10.12. 2017
  • 11. sæti – Svig, Bandaríska meistaramótið, Sugarloaf, 26.03. 2017

Skíðamaður ársins - Snorri Einarsson

Snorri Einarsson er í sérflokki í skíðagöngu á Íslandi. Hann hefur náð bestum árangri allra skíðgöngumanna frá upphafi innan SKÍ á árinu 2017. Í raun er einungis Kristinn Björnsson sem hefur náð betri árangri.

Hann náði 39. og 43. sæti á heimsmeistaramótsins fyrr á þessu ári þrátt fyrir veikindi rétt fyrir mót. Í haust hefur hann blómstrað í heimsbikarnum sem er sterkasta mótaröð í heimi og var þrisvar meðal efstu 30 og hefur því fengið heimsbikarstig. Besti árangurinn hingað til er 22. sæti í 15 km með hefðbundinni aðferð í Ruka í Finnlandi.

Snorri endaði í 4. sæti á sterku FIS móti í nóvember í Finnlandi. Var það undirbúningsmót fyrir heimsbikarinn.

Snorri hefur nú þegar unnið sér inn þátttökurétt á Vetrarólympíuleikunum í febrúar 2018 með árangri sínum á árinu. Er hann eini íslenski keppandinn sem er kominn með „sitt eigið“ sæti en aðrir keppendur eru inni á kvóta eins og staðan er í dag.

Sæti á heimslista:

  • Lengri vegalengdir: 174. sæti

Helstu úrslit:

  • 39. sæti – 30 km skiptiganga – HM, Lahti, Finnlandi, 25.2. 2017
  • 43. sæti – 15 km C – HM, Lahti Finnlandi, 1.3. 2017
  • 4. sæti – 15 km F – FIS mót, Olos, Finnlandi, 12.11. 2017
  • 10. sæti – 10 km C – FIS mót, Olos, Finnlandi, 11.11. 2017
  • 22. sæti – 15 km C – heimsbikar, Ruka, Finnlandi, 25.11. 2017
  • 27. sæti – 15 km F eltiganga – heimsbikar, Ruka, Finnlandi, 26.11. 2017
  • 33. sæti – 30 km skiptiganga – heimsbikar, Lillehammer, Noregi, 3.12. 2017
  • 29. sæti – 15 km F – heimsbikar, Davos, Sviss, 10.12. 2017
Snorri Einarsson er skíðamaður ársins.
Snorri Einarsson er skíðamaður ársins.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert