Gunnar myndi glaður mæta Ponzinibbio á ný

Gunnar Nelson.
Gunnar Nelson. mbl.is/Eggert

Bardagakappinn Gunnar Nelson var í áhugaverðu viðtali á ESPN á dögunum þar sem hann segir frá því að hann taki það með öllu rólega þessa dagana og vilji ekki taka neina áhættu eftir að hafa verið rotaður í UFC-bardaga sínum við Argentínumanninn Santiago Ponzinibbio í Skotlandi í júlí.

Gunnar mótmælti úrslitum bardagans vegna augnpots Argentínumannsins en úrslitin stóðu. Allt augnpotið var einmitt til umræðu í dag fyrir komandi bardaga Argentínumannsins við Mike Perry um helgina í UFC í Kanada.

„En ég var samt rotaður,“ sagði Gunnar.

„Ég vil gefa heilanum á mér og líkamanum tíma til þess að jafna sig eftir rothöggið. Ég hef séð marga fara snemma stað, sem er augljóslega það sem mann langar til að gera. Þú vilt standa strax upp aftur eftir slakan bardaga og vilt bæta upp fyrir hann,“ sagði Gunnar.

„En á hinn bóginn er ég að horfa til lengri tíma,“ sagði Gunnar sem vill ekki fara of snemma af stað.

„Ég byrjaði að æfa létt fyrir mánuði. Ég hef hitt taugasérfræðing nokkrum sinnum og hann hefur nefnt það við mig að heilaskaði sjáist ekki alltaf í skönnum,“ sagði Gunnar og ítrekaði að það gæti tekið langan tíma að jafna sig almennilega á þungum höfuðhöggum.

„Hættan er sú að þú fáir annað högg. Það þarf ekki einu sinni að vera þungt - sem aftur getur valdið langtímaskaða. Ég hef farið í nokkra skanna og heilinn á mér er í fullkomnu lagi og ég vil halda því þannig. Ég vil ekki þurfa að eiga við vandamál að stríða vegna þessa þegar ég verð eldri og vil geta eytt tíma með börnunum mínum og börnum þeirra,“ sagði Gunnar.

Í síðasta mánuði lýsti Gunnar yfir áhuga á því að mæta Darren Till en hann hefur ekki heyrt frá UFC varðandi það. Hann telur að endurkoma sín verði 17. mars næstkomandi í London. Hann segist jafnframt búast við andstæðingi úr topp 10 þar sem hver sem er sjái að augnpotið hafi haft mikil áhrif á úrslit bardagans gegn Ponzinibbio, þrátt fyrir að úrslitin hafi fengið að standa.

„Ég væri mjög mikið til í að mæta Ponzinibbio aftur, ef það væri möguleiki,“ sagði Gunnar enn fremur.

Frétt ESPN

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert