Wimbledon-meistari lést 49 ára

Jana Novotna er látin.
Jana Novotna er látin. AFP

Áfall hefur dunið yfir tennisheiminn eftir að fréttir bárust af því að Jana Novotna, fyrrverandi Wimbledon-meistari, hafi látist aðeins 49 ára gömul.

Novotna hrósaði sigri á Wimbledon-mótinu árið 1998, en það er elsta og eitt sterkasta risamót heims, en hún hafði áður tapað í úrslitum á mótinu árin 1993 og 1997. Hún náði hæst í annað sæti heimslistans, en hún vann 12 risatitla í tvíliðaleik og fjóra í tvenndarleik. Hún var tekin inn í heiðurshöll tennissambandsins árið 2005.

Novotna, sem var frá Tékklandi, greindist svo með krabbamein og samkvæmt fréttum lést hún friðsamlega í faðmi fjölskyldu og vina.

„Jana var innblástur til okkar allra bæði innan og utan vallar. Stjarna hennar mun alltaf skína bjart í sögu tennisheimsins. Hugur okkar er hjá fjölskyldu hennar,“ segir í tilkynningu frá alþjóðlega tennissambandinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert