Íslandsmeistari sex mánuðum frá barnsburði

Guðrún Jóhannsdóttir eftir úrslitaviðureignina í gær.
Guðrún Jóhannsdóttir eftir úrslitaviðureignina í gær. mbl.is/Hari

Andri Nikolaysson Mateev úr FH og Guðrún Jóhannsdóttir úr Skylmingafélagi Reykjavíkur urðu Íslandsmeistarar í skylmingum með höggsverði í gær, en mótið fór fram í Baldurshaga í Laugardalnum.

„Þetta var mjög jöfn og skemmtileg viðureign,“ sagði Guðrún sem með sigrinum hreppti Íslandsmeistaratitilinn í kvennaflokki í níunda sinn. Guðrún hafði betur gegn Þórdísi Ylfu Viðarsdóttur úr FH í æsispennandi úrslitaviðureign, 15:13. Aldís Edda Ingvarsdóttir úr FH hafði titil að verja í ár, en var ekki á meðal keppenda. Giedre Razgute hafnaði í þriðja sæti í kvennaflokki.

„Ég vissi að það væri ekki hægt að byrja rólega á móti Þórdísi, hún byrjar alltaf af ákveðni. Ég missti aðeins taktinn fyrir hlé og þá þýddi ekkert annað en að koma ákveðin til baka og það var það sem fleytti mér áfram, síðasta stigið reynist manni oftast erfitt. Þegar spennan eykst á maður til að missa stjórn á hraðanum svo ég reyndi að róa hreyfingar mínar undir lokin.“

Guðrún hefur æft skylmingar í 19 ár, en hún bjó um áraskeið í Kanada og æfði þar með landsliðinu.

„Ég hef ekki mikið verið að skylmast síðustu ár en hef alltaf verið með annan fótinn inni í skylmingaheiminum. Sonur minn byrjaði að stunda skylmingar fyrir rúmu ári og það var þá sem ég fór aðeins að æfa mig á ný og lék mér svolítið með honum,“ segir Guðrún, en sonur hennar er sjö ára.

„Að vísu eignaðist ég barn í maí en ég lagði mikla áherslu á styrktaræfingar í haust. Ég hef verið að leika mér svo með syninum í skylmingunum en það er alltaf gaman að taka keppnisbardaga.“

Nánar er fjallað um Íslandsmótið í skylmingum í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert