„Bjóst ekki við því að vinna til verðlauna“

Júlían J. K. Jóhannsson vann gull í réttstöðulyftu.
Júlían J. K. Jóhannsson vann gull í réttstöðulyftu.

Júlían J.K. Jóhannsson vann til gullverðlauna í réttstöðulyftu og bronsverðlauna í samanlögðum árangri í +120 kg flokki á heimsmeistaramótinu í kraftlyftingum sem haldið var í Pilsen í Tékklandi um helgina.

Júlían lyfti 370 kg í réttstöðulyftunni í annarri tilraun sem dugði honum til sigurs og hann varði þar með heimsmeistaratitil sinn í þessari grein. Í þriðju tilraun gerði Júlían atlögu að nýju heimsmeti þegar hann reyndi við 400 kg en tókst ekki að koma stönginni upp að hnjám. Í hnébeygjunni lyfti Júlían 390 kg og 300 í bekkpressunni. Hann endaði í þriðja sæti með 1.060 kg í samanlögðum árangri.

„Ég get ekki verið annað en mjög ánægður með þennan árangur og að enda árið á þennan hátt þar sem það hefur verið frekar erfitt. Ég bjóst ekki við því að vinna til verðlauna þó svo að ég vissi að ég gæti það,“ sagði Júlían í samtali við Morgunblaðið í gær.

Brjótast út úr þreytunni

„Þetta var síðasta mót ársins hjá mér. Ég er búinn að keppa á mörgum mótum á þessu ári. Ég er búinn að taka þátt í sex mótum sem er mjög mikið í kraftlyftingum. Núna taka við léttari æfingar hjá mér næstu tvær til þrjár vikurnar og brjótast út úr þreytunni. Svo hefst næsta ár með Reykjavíkurleikunum en ég reikna ekki með því að keppa á jafnmörgum mótum og ég keppti á á þessu ári. Maður getur ekki búist við því að bæta árangur sinn oftar en einu sinni til tvisvar á ári,“ sagði Júlían sem vann til bronsverðlauna í hnébeygju á Evrópumótinu í sumar og var kjörinn íþróttamaður Reykjavíkur í fyrra.

Akureyringurinn Viktor Samúelsson keppti einnig á mótinu í -120 kg flokki. Viktori tókst ekki að fá gilda hnébeygju og féll því úr keppni í samanlögðu, en hann náði fjórða sæti í bekkpressu með 295 kg. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert